135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

tekjustofnar sveitarfélaga.

146. mál
[11:28]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég vil eins og aðrir óska hv. þm. Erlu Ósk Ásgeirsdóttur til hamingju með jómfrúrræðuna og að leggja fram þetta frumvarp. Ég tek heils hugar undir það frumvarp að gefa sveitarfélögunum tækifæri til að lækka útsvar og afnema þær skerðingar sem þar eru. Ég hefði hins vegar kosið að hámarkið hefði líka verið tekið af. Þó að ég sé gegnumsneitt á móti hækkun skatta snýst þetta engu að síður um sjálfsforræði sveitarfélaganna. Og kjósi einstök sveitarfélög að fara þá leið að lækka útsvar eða fara ofar er það einfaldlega á þeirra sjálfsforræði þó að meginmarkmiðið eigi að vera að hafa skatta í lágmarki.

Hins vegar er þetta frumvarp innlegg í þá umræðu fyrir sveitarfélögin í landinu með hvaða hætti við eigum að skoða tekjustofnana alla. Flestir vita að það eru nokkur sveitarfélög hér í landinu sem standa vel, geta leyft sér að lækka útsvarið og gera ýmislegt sem önnur sveitarfélög geta einfaldlega ekki. Sjálfsforræði sveitarfélaganna þarf að vera virkt en ég fagna frumvarpi um lægri skatta. Ég fagna öllum frumvörpum um lækkun skatta.

Ég lít fyrst og síðast á þetta frumvarp sem innlegg í umræðuna um tekjustofna sveitarfélaga. Það er brýnt, og ég tek undir með hv. þm. Grétari Mar Jónssyni, að það þarf að skoða vel þau stjórnsýslustig tvö sem eru í landinu, ríkið annars vegar og sveitarfélögin hins vegar. Ekki standa öll sveitarfélög illa. Mörg sveitarfélög standa mjög vel og eru að gera góða hluti. Það er bara einfaldlega þannig og það er ekki hægt að setja alla undir sama hattinn.