135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

tekjustofnar sveitarfélaga.

146. mál
[11:33]
Hlusta

Flm. (Erla Ósk Ásgeirsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmönnum fyrir góðar undirtektir sem málið hefur fengið og ég vil taka undir að það er mjög mikilvægt að ræða tekjustofna sveitarfélaganna enda hefur þá mjög mikið borið á góma í umræðunni undanfarið og mikið hefur heyrst frá sveitarfélögunum.

Aðalumræðuefnið hér áðan snerist um að með sömu rökum mætti afnema hámarksútsvarið líka. En mig langar að benda á að ef við horfum til lögmætisreglunnar þá er hún þannig að sveitarfélögum er ekki heimilt að taka ákvarðanir sem hafa íþyngjandi eða bindandi réttaráhrif fyrir borgarana.

Stjórnarskráin segir okkur líka fyrir um það að skattamálum skal skipa með lögum og ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um að leggja skuli á skatt eða breyta honum eða afnema. Enginn skattur verði lagður á nema að heimild sé fyrir honum í lögum. Þar af leiðandi geta sveitarfélög ekki ákveðið útsvarsprósentuna sína.

Það er mjög mikilvægt að það komi hér strax fram því að um hámarksútsvarið gilda í rauninni allt aðrar reglur, skattheimtan verður að vera bundin í lög. Það er ýmislegt sem tengist þessari umræðu eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom inn á. Hann vildi að sveitarfélögin hefðu frjálsar hendur í skattheimtu. Þá vísa ég aftur í þau rök sem ég vísaði til áðan, að það er löggjafarsamkundunnar að ákvarða skatta.

Það eru mörg mál sem tengjast þessu og mjög eðlilegt að umræðan fari strax út í að ræða hámarksskattheimtuna. En það er ýmislegt annað sem tengist henni líka og jöfnunarsjóður er til að mynda byggður í kringum hámarksútsvarið, það er að segja að jöfnunarhlutinn í jöfnunarsjóði sem skiptist milli sveitarfélaganna þar sem fjármálin standa ekki nógu vel, en það eru u.þ.b. 3 milljarðar sem skiptast þar, sveitarfélögin fá ekki úthlutað úr jöfnunarsjóði nema að vera með útsvarið í botni.

Þannig er kerfið í rauninni letjandi því að það hvetur til hærri skattheimtu sveitarfélaganna. Það er hvetjandi fyrir sveitarfélögin að hafa útsvarið í botni til þess að fá tekjur úr jöfnunarsjóði af því ef sveitarfélögin fara svo í það að lækka útsvarið, þá falla jöfnunartekjur jöfnunarsjóðs niður.

Annað sem tengist umræðunni er líka stærð sveitarfélaga. Þegar stærðin var ákveðin 1986 kom nefnd með tillögur um að lágmarksstærð í sveitarfélögum skyldi vera 200 manns í hverju sveitarfélagi. Við þekkjum það hins vegar að lágmarksstærð sveitarfélaga í dag er 50 íbúar. Fari hún undir það þrjú ár í röð ber sveitarfélögunum að sameinast öðrum.

Þetta hefur að sjálfsögðu líka áhrif á það hvernig staða sveitarfélaganna er. Ég held að það hafi verið hv. þm. Gunnar Svavarsson sem kom inn á það að sveitarfélögin gætu ekki höndlað verkefni sín nógu vel og löggjafarvaldið hefði kannski fært einhver verkefni yfir sem sveitarfélögin hefðu ekki höndlað nógu vel.

Þetta tengist líka stærð sveitarfélaganna. Í dag er um helmingur sveitarfélaga með íbúa undir 500, við sjáum að sveitarfélögin eru mjög smá á Íslandi. Meðaltalið er reyndar 2.900 í hverju sveitarfélagi en stóru sveitarfélögin hérna á suðvesturhorninu skekkja myndina auðvitað mjög mikið.

Mér finnst mikilvægt í þessari umræðu að sjálfsforræði sveitarfélaga verði styrkt með því að afnema þetta lágmarksútsvar. Það eru ekki mörg sveitarfélög sem eru með útsvar í lágmarki. Það eru einungis þrjú. En mér finnst þetta samt sem áður snúa að því hvernig við horfum á skattheimtu í heild sinni. Við eigum almennt ekki að mínu mati að setja lágmarksskatta af því það er letjandi fyrir stjórnvöld. Í framhaldi af þessu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og skattanefndar.