135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

barnalög.

149. mál
[12:16]
Hlusta

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði að gera sömu mistök og hv. þm. Jón Magnússon og óska framsögumanni frumvarpsins, hv. þm. Dögg Pálsdóttur, til hamingju með jómfrúrræðuna. Ég nota þá tækifærið og óska henni innilega til hamingju með jómfrúrræðuna í gær.

Ég fagna mjög þessu frumvarpi. Mér finnst felast í því sannkallað jafnrétti og það vekur okkur til umhugsunar um atriði sem oft vilja gleymast í umræðunni. Mikilvægt er að við reynum að tryggja jafna foreldraábyrgð og ég er sammála flutningsmanni um að það sé besta leiðin til að ná fullkomnu jafnrétti.

Við ræddum í gær jafnréttismál í tengslum við frumvarp hæstv. félagsmálaráðherra um jafna stöðu og rétt karla og kvenna. Ég vakti athygli á því að frumvarpið væri að einhverju leyti of kvennamiðað. Ég hvet enn hv. félagsmálanefnd til að skoða þessi mál bæði út frá hagsmunum karla og kvenna. Það er einnig mikilvægt að þeim sem hafa sjónarmið feðra að leiðarljósi verði veittur tilnefningarréttur inn í jafnréttisráð.

Ég fagna því að lögheimilisákvæðið sé tekið til athugunar og tel það mjög mikilvægt. Málið snýst ekki aðeins um barnabætur og vaxtabætur, eins og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir nefndi, heldur einnig um praktísk atriði, t.d. þau er varða tryggingar. Ef það foreldri sem barnið á ekki lögheimili hjá ætlar t.d. að tryggja barnið sitt í ferðalagi á þess vegum er það ekki hægt, tryggingaskilmálarnir koma í veg fyrir það. Barnið getur aðeins átt eitt lögheimili en breytingar á lögheimilisákvæðinu mundu leiðrétta það. Hin leiðin væri sú að tryggingafélögin áttuðu sig á því að í nútímaþjóðfélagi eru fleiri sambúðarform. Við getum, sem löggjafinn í þessu tilviki, lagfært það.

Ég tel hugarfarsbreytingu nauðsynlega eins og flutningsmaður benti á og tek heils hugar undir orð hennar. Ég óska þessu frumvarpi alls hins besta í meðferð þingsins.