135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

barnalög.

149. mál
[12:20]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ekki á hverjum degi sem nýir þingmenn leggja fram svona vel unnin og vönduð mál. Þegar fólk hefur svo yfirgripsmikla þekkingu á lögum og semur frumvarp af þessu tagi, getur maður ekki annað en dáðst að því hvernig málið er sett fram.

Forsjármál eru eðli málsins samkvæmt einhver viðkvæmustu mál sem við fjöllum um á vettvangi löggjafans og opinberlega. Þau eru afar vandmeðfarin og mér er til efs að við getum sett reglur eða lög sem ná af einhverri sanngirni yfir öll tilvik sem koma upp milli foreldra sem slíta samvistum. Við sem áttum sæti í allsherjarnefnd þegar forræðismál voru til umfjöllunar tvö síðastliðin ár lærðum af því starfi að erfitt er að koma þessum málum undir lög eða reglur svo vel fari.

Ef til vill má þó setja ákveðna þætti sem lagðir eru til inn í löggjöf. Það verður fróðlegt að heyra hvernig þeir sem fá málin til umsagnar að beiðni allsherjarnefndar munu fjalla um þau. Mig langar þó að nefna eitt atriði sem ég efast um að verði til bóta. Það er að sett verði í löggjöf að dæma megi um sameiginlega forsjá eins og hv. þm. Dögg Pálsdóttir leggur til.

Eftir þá miklu umfjöllun sem fram fór í allsherjarnefnd á sínum tíma sannfærðist ég um að forsjármál væru þess eðlis að þau þyldu ekki dóm. Þess vegna er ég andvíg því að við setjum í löggjöf að dómurum sé heimilt að dæma sameiginlega forsjá.

Ég hef verið fylgjandi málflutningi Jónasar Jóhannssonar, héraðsdómara hjá Héraðsdómi Reykjavíkur. Hann var gestur allsherjarnefndar þegar við fjölluðum um þessi mál og sendi okkur greinargerð um sjónarmið sín. Jónas telur að reyna eigi til þrautar að ná sáttum í forsjármálum og er einn af brautryðjendum meðal fræðimanna í þeim efnum. Árangur hans í sáttameðferð er svo mikill að ég sannfærðist um að með henni væri hægt að forðast dóm í forsjármálum. Beita þarf vissum aðferðum sem við þekkjum frá hinum Norðurlöndunum og félagsfræðingar, sálfræðingar og dómarar hafa tileinkað sér. Ég hef verið hvatamaður að því að sáttameðferðin sé reynd til þrautar og mér finnst eðlilegra að hún sem slík sé lögfest frekar en að leitt sé í lög að dómurum sé mögulegt að dæma hina sameiginlegu forsjá.

Það verður áhugavert að fylgjast með umfjöllun um málið í nefndinni og ég óska hv. þingmanni enn til hamingju með vel unnið mál.