135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

155. mál
[12:39]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu færa hér fram þakkir til hv. þm. Valgerðar Bjarnadóttur fyrir að hafa frumkvæði að því að leggja fram þetta frumvarp. Hún hefur í ræðu og riti fjallað um þessi mál af kannski meiri elju en flestir aðrir og það er vel við hæfi að hún flytji þetta mál.

Það fyrirkomulag sem komið var á um eftirlaunakjör þingmanna og ráðherra með hinum frægu eftirlaunalögum var mjög alvarleg breyting fyrir margra hluta sakir, helst þá þær að við höfum verið svo gæfusöm í þessu landi að hafa náð að byggja upp öflugt sjálfbært lífeyriskerfi sem byggir á því að fólk greiðir í lífeyrissjóði og þiggur lífeyri úr sjóðunum í samræmi við það sem fólk hefur lagt til. Þessir lífeyrissjóðir hafa verið forsenda efnahagslegs stöðugleika á Íslandi undanfarna áratugi, þeir hafa rutt brautina í þróun skuldabréfamarkaðar og hlutabréfamarkaðar í landinu og þeir hafa almennt séð verið til þess fallnir að skapa efnahagslegan stöðugleika í víðara samhengi.

Á síðustu árum hafa náðst áfangar í þá átt að losa um annað forréttindakerfi sem var til, sem fólst í því að ríkisstarfsmenn fengu lífeyri óháð því sem þeir höfðu greitt inn. Það hafa verið stigin skref í þá átt að jafna aðstöðumun milli starfsmanna á opinberum markaði og almennum vinnumarkaði að þessu leyti.

Hið eina rétta er að sjálfsögðu að eitt gildi um alla. Það verður ekki gert of mikið úr því hversu mikilvægt það er fyrir íslenskt samfélag að búa við sjálfbært lífeyriskerfi. Íslenska þjóðin er eina þjóðin í Vestur-Evrópu sem býr við þær aðstæður að eiga brúklega fyrir framtíðarskuldbindingum í lífeyrismálum. Þess vegna er svo varhugavert að snúa frá þeirri þróun. Um þetta hefur verið almenn samstaða í íslensku samfélagi og það er gríðarlega hættulegt að bora göt í þá samstöðu. Við eigum meira undir því en nokkru öðru að eiga fyrir eftirlaunaskuldbindingum okkar þegar fram í sækir, þegar hin tiltölulega unga þjóð eldist, meira en flestar aðrar þjóðir.

Ég trúi því og treysti að við náum á þessu þingi samstöðu um það á hinu háa Alþingi að færa okkur aftur í rétta átt, fara í þá átt að búa til eitt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn sem hlýtur að vera hið eðlilega ástand. Það er fullkomlega óásættanlegt að löggjafinn hafi um það forgöngu að skerast úr leik í þessu efni. Ég held að það væru líka gríðarlega góð og jákvæð skilaboð til aðila vinnumarkaðarins nú þegar kjarasamningar fara í hönd að við sendum út þau skilaboð að við ætlum ekki að slíta í sundur friðinn á íslenskum vinnumarkaði til lengri tíma litið.