135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

155. mál
[12:59]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Hér er svolítill misskilningur á ferð, því að ég held að ekki hafi verið hægt að skilja annað af orðum mínum en að ég og hv. þm. Katrín Júlíusdóttir værum algjörlega sammála um þessi atriði og ég var ekki að gera athugasemd við málflutning hennar. Ég var eingöngu að ítreka það að ekki hefðu verið neinar forsendur fyrir þeirri breytingu sem gerð árið 2003 sem hv. þingmaður rakti hér ágætlega.

Ég var ekki að gera athugasemdir við málflutning hennar, alls ekki. Ég var að undirstrika þau orð sem hún sagði og leggja sérstaka áherslu á að það voru aldrei neinar forsendur, ekki heldur áður fyrir því að skapa ákveðnum aðilum í þjóðfélaginu sérkjör, ákveðnum opinberum starfsmönnum, hvort sem þeir heita þingmenn eða ráðherrar og þess vegna forseti Íslands, eða hæstaréttardómarar, sérkjör hvað lífeyrisréttindi varðar. Þau sérkjör eigum við að afnema og grundvallaratriðið er að við mótum eitt lífeyriskerfi fyrir alla landsmenn.