135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

155. mál
[13:08]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að taka þátt í þessari umræðu en ræða hv. þingmanns rifjaði upp fyrir mér rótina að því sem gerðist snemma vetrar árið 2003, þ.e. þegar þinginu bárust þau tíðindi að úti í bæ hefði myndast þverpólitísk samstaða um að hækka eftirlaun ráðherra fyrst og fremst. Þetta var mjög ráðherramiðað eftirlaunafrumvarp fyrst og síðast. Ef ég man það rétt, og ég held ég fari rétt með það, misstu a.m.k. sumir þingmenn spón úr sínum aski ef svo má að orði komast þannig að málið var fyrst og fremst ráðherramiðað. Það sem gerist er að meint þverpólitískt samkomulag myndaðist úti í bæ þar sem þingflokkar voru ekki hafðir með í ráðum og enn er óljóst hverjir stóðu að því samkomulagi, svo öllu sé til haga haldið.

Í stað þess að umræðan á þinginu á sínum tíma væri um hvers vegna þingmenn og ráðherrar ættu að hafa betri kjör en aðrir og hvort einhver eðlismunur væri á milli þingmanna og ráðherra og hvort huga þyrfti sérstaklega að þeim einstaklingum sem hafa sinnt slíkum embættum þegar þeir yfirgefa vettvanginn þá varð umræðan fyrst og fremst um hver hafi svikið, hvers vegna ekki stóðu allir að þessu o.s.frv. Það virkaði á mig þannig, ég get alveg sagt það, sem einhver hin aumkunarverðasta staða sem þingið hefur komist í, þ.e. þegar meint samkomulag kom inn í þingið og stór hluti þingsins stóð upp og greiddi atkvæði í samræmi við það, án þess að taka sérstaka afstöðu. Ég vonast til að því ráðherraræði sem hér ríkti í a.m.k. tólf ár fari að ljúka. (Forseti hringir.) Vonandi rennur upp sá tími að þingið taki sjálfstæða afstöðu í málum. Þetta er að mínu viti (Forseti hringir.) eitthvað það lægsta sem þingið hefur komist.