135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

155. mál
[13:13]
Hlusta

Ellert B. Schram (Sf):

Frú forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu um of en tel mér skylt að kveðja mér hljóðs til að lýsa yfir fylgi mínu við þetta frumvarpi sem ég er reyndar einnig flutningsmaður að. En ég hefði gjarnan viljað ganga aðeins lengra og vil því gera grein fyrir því. Ég vil hins vegar gera athugasemdir við málflutning hv. þm. Valgerðar Sverrisdóttur þar sem hún vísar til þess að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir:

„Eftirlaunakjör alþingismanna og ráðherra verði endurskoðuð og meira samræmi komið á í lífeyrismálum ráðamanna og almennings.“

Þetta vitnar hún í og telur að málið sem hér um ræðir sé krókur á móti bragði af hálfu Samfylkingarinnar. Hún lýsir undrun sinni á því að við séum með eitthvert þjófstart í þessu málefni. Ég hef þvert á móti litið svo á að frumvarpið sem hér er lagt fram sé til þess að hreyfa við málinu og koma fram með sjónarmið sem hægt er að taka tillit til þegar að þeirri endurskoðun kemur sem búið er að lofa í stjórnarsáttmálanum. Það er því með jákvæðum huga og kannski með hliðsjón af þeim setningum í stjórnarsáttmálanum sem þetta mál er á dagskrá.

Auk þess er auðvitað ljóst að hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir er inni á þingi í nokkra daga. Hún hefur haft þetta mál sem sitt baráttumál í langan tíma og þess vegna er skiljanlegt og eðlilegt að hún flytji málið og komi sjónarmiðum sínum á framfæri.

Varðandi umræðuna áðan um ráðamenn, ráðherra, þingmenn o.s.frv., vildi ég aðeins upplýsa að ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að lögin sem hér eru til umræðu hafi ekki verið endilega til mikilla hagsbóta fyrir alþingismenn. Ég hef látið kanna það vegna þess að ég er kominn á eftirlaunaaldur sem þingmaður frá fyrri árum. En þau kjör sem mundu bjóðast samkvæmt núverandi lögum um eftirlaunakjör þingmanna sem samþykkt voru 2003 eru lakari en þau sem ég hef og mun njóta þegar þar að kemur miðað við þau eftirlaunakjör sem þá ríktu og ég mun heyra undir. Hér er því ekki um það að ræða að þingmenn hafi verið að hygla sjálfum sér en það sem skiptir máli er að þarna var verið að búa til forréttindi og sérréttindi fyrir ýmsa aðra, svo að ég fari nú ekki nánar út í það.

Ég hefði viljað ganga lengra og ekki vera eins hógvær og sáttfús og 1. flutningsmaður að því er varðar áunnin lífeyrisréttindi. Ég hefði viljað láta á það reyna að frumvarpið gengi lengra að því leyti að áunnin lífeyrisréttindi væru líka felld niður. Ég er ekki svo viss um að það yrði vandamál vegna eignaréttarákvæða og tilkalls til eignarréttar þar sem menn eru byrjaðir að fá greitt samkvæmt þessum nýju lögum. Ég vísa til þess að Hæstiréttur hefur kveðið upp dóma þar sem hægt er að breyta svona réttindum enda sé um almenna breytingu að ræða sem taki til allra sjóðfélaga eftir atvikum. Ég held að athuga eigi hvort hægt sé að ganga lengra þegar málið er komið til nefndar.

Að öðru leyti þakka ég fyrir frumkvæðið sem hv. þingmaður hefur sýnt með því að leggja fram þetta frumvarp. Ég er ánægður með að hafa tekið þátt í að veita því atbeina.