135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

eftirlaun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna og hæstaréttardómara.

155. mál
[13:35]
Hlusta

Flm. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka þingmönnum fyrir góðar undirtektir við þetta frumvarp. Eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði er kannski megintilgangurinn með því að flytja það í þessu formi að hreyfa við málinu. Ég sjálf hef mjög ákveðnar skoðanir á því hvernig þurfi að klára þetta mál. Það þarf að klára það með því að þessi sérréttindi, hvort sem þau voru fyrr eða síðar en þau sem eru í þessum lögum, verði afnumin og auðvitað ber að stefna að því að allir landsmenn njóti sömu lífeyriskjara. Það hlýtur að vera stefnan.

Ég enda mál mitt á því að segja að það er mér að meinalausu og meira en það ef breytingar á frumvarpinu yrðu einnig varðandi áunnin réttindi. Ég hélt að ég hefði skýrt það í máli mínu eða vonaðist til að ná að skýra það í máli mínu að í frumvarpinu er ekki um það fjallað til að forðast það að beina umræðunni að því sem ég tel hliðaratriði. Aðalmálið tel ég að afnema þau réttindi sem voru ákveðin í desember árið 2003.