135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

breyting á lagaákvæðum um húsafriðun.

33. mál
[13:38]
Hlusta

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lagaákvæðum um húsafriðun sem ég flyt ásamt fimm öðrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, þeim Álfheiði Ingadóttur, Jóni Bjarnasyni, Katrínu Jakobsdóttur, Kolbrúnu Halldórsdóttur og Þuríði Backman.

Frumvarpið fjallar annars vegar um breytingar á lögum um húsafriðun, nr. 104/2001, og hins vegar um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997.

Frumvarpinu er ætlað að styrkja stöðu húsafriðunar og verndun sögulegs byggingararfs þjóðarinnar frá því sem er í gildandi lögum, annars vegar í lögum um húsafriðun og hins vegar í skipulags- og byggingarlögum. Á undanförnum missirum hafa ítrekað komið fram dæmi sem sýna fram á þörfina á því að efla húsafriðun og stöðu hennar í lögum. Á sama tíma hefur umræða um húsafriðun verið mikil og skilningur almennings og stjórnvalda á mikilvægi húsafriðunar fyrir menningu og sögu þjóðarinnar er tvímælalaust að aukast.

Íslensk stjórnvöld hafa nýlega mótað sér menningarstefnu í mannvirkjagerð þar sem m.a. er sérstaklega fjallað um menningararfinn, byggingarlistaarfinn. Menntamálaráðherra skipaði nefnd á árinu 2005 til að vinna tillögur um stefnu stjórnvalda í manngerðu umhverfi undir forustu Halldóru Vífilsdóttur arkitekts. Menningarstefna í mannvirkjagerð er afrakstur þeirrar nefndarvinnu. Í þeirri stefnu segir m.a., með leyfi forseta:

„Svo kann að virðast að Íslendingar eigi ekki mikinn byggingarlistararf. Íslendingar bjuggu lengi við fátækt, einangrun og harðbýli og var erfitt um vik með endingargóð byggingarefni. Á síðustu hundrað árum hefur orðið mikil breyting þar á en tilhneigingar gætir til þess að horfa einvörðungu fram á við og gá ekki að þeim fágætu verðmætum sem við eigum í mannvirkjum og byggðamynstri. Arfur liðins tíma gerir okkur kleift að þekkja rætur og grunn þeirrar sjálfsmyndar sem við tengjum okkur við í dag. Stórbrotið landslag er eitt helsta einkenni Íslands. Mikil auðæfi felast í ósnortinni náttúrunni og er þar falinn stór hluti af arfi komandi kynslóða.“

Í þessari menningarstefnu kemur fram mikill metnaður til að láta söguna og arfinn njóta sín. Það er þýðingarmikið að ekki sé látið staðar numið með skýrri stefnumótun. Henni þarf að fylgja eftir á öllum sviðum. Þær breytingar á húsafriðunarlögum annars vegar og skipulags- og byggingarlögum hins vegar sem lagðar eru til í þessu frumvarpi eru til þess fallnar að styrkja húsafriðun og vernda sögulegan byggingararf.

Ég ætla að víkja stuttlega að einstökum greinum í frumvarpinu. Það skiptist í tvo kafla, annars vegar kafla sem fjallar um breytingu á lögunum um húsafriðun og hins vegar kafla sem fjallar um breytingu á skipulags- og byggingarlögum.

Fyrst um I. kafla. Í 1. gr. er gert ráð fyrir að aldursákvæði 6. gr. laga um húsafriðun breytist og gerður sá áskilnaður að öll hús sem eru 100 ára og eldri verði friðuð með lögum og jafnframt allar kirkjur sem eru 75 ára og eldri. Í gildandi lögum er friðun miðuð við hús byggð fyrir 1850 og kirkjur byggðar fyrir 1918. Augljóst er að með þessari viðmiðun næst ekki að láta húsafriðun fylgja tímanum heldur er hún óhögguð í ártölum sem ákveðin voru á sínum tíma, og eru jafnvel tilviljunarkennd. Með því að miða við ákveðinn aldur húsa er tryggt að um leið og hús nær tilteknum aldri nýtur það friðunar og gilda þá ákvæði laganna um allar fyrirhugaðar breytingar, flutning eða niðurrif. Þar með skapast einnig samfella í húsafriðun. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hver fjöldi húsa er á landinu öllu sem þessi viðmiðun gæti átt við, en talið er að á höfuðborgarsvæðinu séu aðeins um 1,2% húsa frá því fyrir 1908, eða um 500–600 hús, og utan þess munu sennilega vera u.þ.b. 360 friðuð hús. Utan Reykjavíkur eru heillegar húsaþyrpingar frá upphafi 20. aldar eða eldri, einkum í Stykkishólmi, á Ísafirði, Akureyri og Seyðisfirði. Sem betur fer hafa þessi sveitarfélög borið gæfu til að varðveita og viðhalda þessum menningararfi og að hluta til með miklum myndarbrag.

Þá lagt til að eigendum húsa sem eru 75 ára og eldri sé skylt að leita umsagnar húsafriðunarnefndar ef þeir hyggjast breyta húsi sínu, flytja það eða rífa. Gildandi lög miða við ártalið 1918. Helstu rök fyrir þeirri tímasetningu eru væntanlega að um það leyti hefst steinsteypuöldin í íslenskri byggingarlist, en full ástæða er nú til að ákvæði húsafriðunarlaga taki til þeirra húsa sem fyrst voru byggð í samræmi við þá stefnu. Ljóst er að þau eru mikilsverður vitnisburður um byggingarsögu þjóðarinnar sem fullt tilefni er til að sýna sóma.

Í þriðja lagi er lagt til að hnykkt verði á orðalagi varðandi skyldur byggingarfulltrúa til að ganga úr skugga um að álits húsafriðunarnefndar hafi verið aflað áður en leyfi er veitt til framkvæmda við friðuð hús. Komið hefur í ljós að full þörf er á því að þær skyldur séu skýrar.

Aðeins um II. kafla frumvarpsins. Í II. kafla frumvarpsins er lögð til breyting á 9. gr. skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997, þess efnis að skylt verði að leita álits húsafriðunarnefndar ef ákvæði um hverfisvernd eru sett í skipulagsáætlun eða ef breyta á skipulagi þar sem þegar gilda ákvæði hverfisverndar. Skylt er samkvæmt núgildandi lögum að setja slíkt ákvæði inn ef innan marka skipulagssvæðis eru einstakar byggingar, mannvirki, húsaþyrpingar, náttúruminjar eða trjágróður sem æskilegt er talið að varðveita vegna sögulegs, náttúrulegs eða menningarlegs gildis, án þess að um lögformlega friðun sé að ræða. Jafnframt er brýnt að húsafriðunarnefnd fái til umsagnar skipulagstillögur þar sem unnið er með skipulagsreiti eða svæði þar sem eru hús eða húsaþyrpingar sem ákvæði 6. gr. húsafriðunarlaga ná til.

Flutningsmenn telja að það sé sérstaklega mikilvægt til að tryggja að sjónarmið húsafriðunar og húsverndar komi fram og séu höfð til hliðsjónar strax á skipulagsstigi. Í 4. gr. gildandi húsafriðunarlaga segir: „Friða má mannvirki, hús eða húshluta, sem hafa menningarsögulegt eða listrænt gildi. Friðun getur náð til nánasta umhverfis friðaðs mannvirkis. Friða má samstæður húsa sem hafa sama gildi og að framan greinir og gilda þá reglur friðunar um hvert einstakt þeirra.“ Enda þótt markmið laganna sé m.a. að friða megi „samstæður húsa“ og „nánasta umhverfi“ virðist sem húsafriðunarnefnd hafi skort skýrar lagaheimildir til að hafa afskipti af málum á skipulagsstigi. Ítrekað hafa skipulagsyfirvöld í sveitarfélögum gagnrýnt húsafriðunarnefnd fyrir að kynna sín sjónarmið seint í ferli mála, iðulega þegar komið er að framkvæmdum og þá sé það „einfaldlega of seint“ eins og oft er sagt. Til að taka á þessu, og tryggja húsafriðunarnefnd þannig tæki til að ná fram markmiðum gildandi laga að þessu leyti, er lagt til að nefndin fái skipulagstillögur til umsagnar ef ákvæði hverfisverndar gildir á svæðinu og sömuleiðis ef fjallað er um skipulag þar sem eru byggingar sem ákvæði húsafriðunarlaganna ná til. Eðlilegt þykir hins vegar að þetta ákvæði sé sett inn í skipulags- og byggingarlög.

Engum blöðum er um það að fletta að það er að verða viss vitundarvakning í umfjöllun um húsafriðun, e.t.v. ákveðin þáttaskil eða tímamót í umræðunni. Nýlegt dæmi er að forseti Alþingis tók skynsamlega afstöðu til skipulagsmála hér á Alþingisreitnum en þá lagði hann til að Skjaldbreið við Kirkjustræti yrði friðuð en áður hafði þingið óskað eftir að heimilað yrði að rífa húsið. Sem betur fer höfðu borgaryfirvöld lagst gegn því. Í fréttatilkynningu frá forseta Alþingis segir m.a. um þetta mál, með leyfi forseta:

„Að Skjaldbreið verði endurbyggð í sem næst upprunalegri mynd. Við þá endurgerð verði einkum hugað að sal á 1. hæð hússins, sem hefur bæði byggingarlegt og sögulegt gildi.“

Talsverð umræða hefur farið fram í fjölmiðlum á undanförnum mánuðum og missirum um húsafriðunarmál og mér finnst kannski við hæfi við þessa umræðu, virðulegur forseti, að vitna m.a. í viðtal við nýráðinn forstöðumann húsafriðunarnefndar sem tók reyndar til starfa í gær en viðtal við hann, Nikulás Úlfar Másson, birtist í Morgunblaðinu 22. október sl. Þar er m.a. fjallað um það frumvarp sem ég er hér að mæla fyrir og þar segir nýráðinn forstöðumaður húsafriðunarnefndar um frumvarpið, með leyfi forseta:

„Breytingin felst í því að gengið verði út frá aldri húsanna en ekki neinu sérstöku ártali eins og verið hefur. Þannig er lagt til í frumvarpinu að miðað verði við að hús sem eldri eru en 75 ára verði háð ofannefndu ákvæði. Því er þannig varið í dag að öll hús sem byggð eru fyrir 1850 eru sjálfkrafa friðuð en í fyrirliggjandi tillögu að breytingum á lögum um húsafriðun er gert ráð fyrir að öll hús sem eru 100 ára og eldri skuli vera friðuð. Þó að hús séu friðuð eða njóti verndar þýðir það ekki að engu megi breyta, samanber viðbygginguna við Alþingishúsið og fyrirhugaðar breytingar á Alþingisreitnum svokallaða. Ég tel þetta verða húsverndun á landinu til framdráttar.“

Nýráðinn forstöðumaður húsafriðunarnefndar hefur kynnt sér þetta frumvarp og fer um það jákvæðum orðum í viðtali við Morgunblaðið seint í október sl.

Jafnframt gæti verið áhugavert að benda á ágæta grein sem birtist í Fréttablaðinu 27. ágúst sl. eftir Guðjón Friðriksson, sagnfræðing og stjórnarmann í Torfusamtökunum, en þar segir hann m.a., með leyfi forseta:

„Hús eru mikilvægur hluti af menningararfi þjóðarinnar. Okkur þykir varið í að geta séð gamalt amboð á Þjóðminjasafninu sem er ekkert merkilegt í sjálfu sér og hefur kannski verið í slæmu ásigkomulagi þegar það kom á safnið. En við viljum varðveita það sem hluta af menningararfi okkar og því hefur verið hlúð að því. Húsin hafa það líka fram yfir muni á söfnum að auðvelt er að nýta þau í nútímanum. Vel upp gerð gömul hús sem hluti af nýju hóteli á mótum Skólavörðustígs og Laugavegar mundu gefa því sérstakan þokka, rétt eins og raunin hefur orðið með Hótel Reykjavík Centrum í Aðalstræti.

Bestu dæmin um uppbyggingu í miðbæ Reykjavíkur síðustu áratugi eru tengd því að gömul hús hafa verið nýtt í tengslum við nýbyggingar. Verstu dæmin eru tengd því að kúlan hefur verið sett á gömul hús og byggðir forljótir steinkumbaldar í staðinn, oft í engu samræmi við umhverfið.“

Ég tel ljóst að það er að verða ákveðin vitundarvakning varðandi mikilvægi þess að varðveita gömul hús. Það eru ekki mörg gömul hús á Íslandi, við erum ungt samfélag, ekki síst í þessu samhengi og í þessum skilningi, og því er mikilvægt að huga að þessu en ég hef orðið var við að það er vaxandi skilningur á því og áhugi á því úti í samfélaginu.

Virðulegur forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði frumvarpinu vísað til 2. umr. og hv. menntamálanefndar og ég vænti þess og vonast til að það fái góðar viðtökur í þinginu.