135. löggjafarþing — 17. fundur,  2. nóv. 2007.

breyting á lagaákvæðum um húsafriðun.

33. mál
[13:51]
Hlusta

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir athugasemdir hennar og spurningar í tilefni af þessu máli. Það er rétt að hér er gert ráð fyrir að hús njóti verndar þegar þau hafa náð tilteknum aldri. Í lögunum í dag er það í raun og veru gert, bara með öðrum hætti, þar er miðað við ákveðið ártal en síðan gætu menn hugsanlega tekið ákvörðun um að breyta því ártali og við það kæmi hugsanlega dálítill stokkur af húsum inn í húsafriðunina. Ég tel að þessi aðferð sé betri því að það liggur þá alltaf fyrir hjá húsafriðunarnefnd með löngum fyrirvara hvaða hús koma inn á hvaða tíma sem vernduð hús og það mundi gerast jafnar og það mundi tryggja ákveðna samfellu, þannig að ég tel að þetta sé betri aðferð hvað það snertir.

Ég tek algjörlega undir með þingmanninum varðandi nýrri hús. Mörg nýrri hús ættu að sjálfsögðu að vera vernduð og reyndar er það svo í skipulagi einstakra sveitarfélaga að unnt er að gefa nýrri húsum sérstaka stöðu í skipulagi þannig að þau njóti einhverrar verndar, hverfisverndar eða að gerð sé tillaga um friðun á þeim. Menntamálaráðherra getur líka samkvæmt lögum í dag friðað nýrri hús að tillögu sveitarfélags og húsafriðunarnefndar. Ég tek undir að hús eins og Norræna húsið er dæmi um slíkt hús sem tvímælalaust ætti að fá þann sess.

Varðandi það að raða húsum í forgangsröð þá held ég að það gerist í raun og veru sjálfkrafa ef sú leið yrði farin að miða við ákveðinn aldur.

Hvað varðar kostnað þá get ég auðvitað ekki sagt beint um það, ég held að samþykkt frumvarpsins sem slíks leiði ekki til aukins kostnaðar vegna þess að það að friða hús í sjálfu sér er ekki kostnaðarauki nema menn taki ákvörðun um að gera þau upp og þá er það pólitísk ákvörðun um hve mikla fjármuni menn eru reiðubúnir að setja í húsafriðunarsjóð.