135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

samkeppni á matvörumarkaði.

[15:24]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég tel að hér sé um mjög mikla almannahagsmuni að ræða. Hér er vísað til sjálfstæðis sveitarfélaga en á sama tíma koma fram ásakanir varðandi það að menn hafi fengið synjanir eftir að hafa sótt ítrekað um lóðir og engin rök hafa fylgt með synjununum. Í ljósi almannahagsmuna finnst mér eðlilegt að leitað sé eftir viðbrögðum hæstvirtra ráðherra gagnvart svo alvarlegu máli.

Ítrekað hafa verið gefnar út skýrslur og upplýsingar um hvað matvöruverð er miklu hærra hér en annars staðar. Það er líka búið að sýna fram á það í rannsóknum hjá Samkeppniseftirlitinu að hækkanir á matvöruverði eru langt umfram það sem hækkanir hjá birgjum gefa tilefni til. Á fimm ára tímabili hækkaði verð um meira en helming í matvöruverslunum, miðað við verð hjá birgjunum. Ég tel því (Forseti hringir.) eðlilegt að menn fari yfir þetta mál og ég spyr aftur: Er ekki tilefni til þess að skoða þetta (Forseti hringir.) gagnvart sveitarfélögunum?