135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

samkeppni á matvörumarkaði.

[15:26]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra að þessu þar sem hæstv. félagsmálaráðherra er ráðherra sveitarstjórnarmála, a.m.k. enn sem komið er þó að reyndar standi til að færa málefni sveitarfélaga til annars ráðherra síðar. Mér finnst því eðlilegt í ljósi almannahagsmuna að spyrja hæstv. ráðherra, ráðherra sveitarstjórnarmála, hvort það komi virkilega ekki til greina í samstarfi við hæstv. viðskiptaráðherra sem er einnig með þessi mál á sinni könnu, matvöruverð og samkeppnismarkaðinn, að ræða við sveitarfélögin og þá sérstaklega við Reykjavíkurborg um þessa stöðu.

Þetta eru alvarlegar ásakanir, virðulegur forseti, og ég batt vonir við að ráðherrar Samfylkingarinnar, sem hafa talað linnulaust á fyrri tíð um matvöruverðið, hafa viljað lækka það, því fannst mér það þess virði (Forseti hringir.) að leita eftir viðbrögðum hæstv. félagsmálaráðherra (Forseti hringir.) en ég heyri að félagsmálaráðherra vill ekki taka á þessu máli.