135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

lagarammi í orkumálum.

[15:30]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir spurninguna. Hann hefur rétt eftir hæstv. iðnaðarráðherra sem sagði í ræðu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í gær að lagaramminn í orkumálum hér á landi væri óviðunandi og ég tek fyllilega undir þá skoðun hæstv. iðnaðarráðherra. Lagaramminn er óviðunandi og það er unnið að því hörðum höndum í ráðuneyti iðnaðarmála að leggja til nýtt frumvarp í orkumálum og koma á orkustefnu hér á landi. Ekki seinna vænna, herra forseti.

Hvað varðar þau stjórntæki sem heyra undir ráðuneyti umhverfismála er alveg rétt sem hv. þingmaður taldi upp, þar eru þá helst skipulagstækin tiltæk, en eins og hv. þingmaður veit líklega manna best er skipulagsvaldið hjá sveitarfélögunum og það gladdi mig ósegjanlega að hann skyldi taka til þess í máli sínu að það ætti að setja á landsskipulag á Íslandi. Það verður lagt til í frumvarpi til skipulagsmála á næstu dögum og ég vænti þess að hv. þm. Árni Þór Sigurðsson styðji það dyggilega að koma á landsskipulagsáætlun á Íslandi. Ég gleðst mjög yfir því að sveitarstjórnarmenn eða fyrrverandi sveitarstjórnarmenn séu að taka við sér í því máli.

Eins og allir hér vita eru tækin til að stöðva stórframkvæmdir ekki beinlínis fyrir hendi eins og sumir halda. Við búum ekki í ráðstjórnarríki. Við notumst við þau tæki sem lög og reglur gera ráð fyrir. Skipulagsvaldið er hjá sveitarfélögunum, leyfisveitingar eru með ýmsum öðrum hætti og fara að sjálfsögðu eftir lögum og reglum og málefnalegri og sanngjarnri málsmeðferð. Þannig er það og við vinnum eftir því.