135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

umferð um Reykjavíkurflugvöll.

[15:38]
Hlusta

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Herra forseti. Ekki alls fyrir löngu voru fulltrúar frá Flugstoðum á fundi hjá okkur í ráðuneytinu þar sem m.a. þessi mál bar á góma. Ef ég man rétt eru í kringum 4.500 hreyfingar í millilandaflugi á Reykjavíkurflugvelli og þar með talið er þá Færeyja- og Grænlandsflug. Mig minnir að það sé ekki svo gott að aðgreina það í gögnum sem eru til en þó þykist ég hafa heyrt að á þessu ári, það sem liðið er, séu í kringum 1.800 flugvélar eða 3.600 hreyfingar sem þarna hafi átt sér stað. Þetta kom til tals vegna umræðu um hvaða tekjur þetta flug gæfi af sér og það verður að segjast alveg eins og er að það kom frekar á óvart að þær eru ekki mjög háar. Á vegum Flugstoða er unnið að því að breyta því hvað varðar tekjuhliðina.

Hitt sem hv. þingmaður spyr um, hvar viðskiptaflugið eigi heima í framtíðinni, í Reykjavík eða Keflavík, hygg ég (Gripið fram í: Sandgerðisflugvöll.) (Forseti hringir.) að — svona eiga hv. þingmenn auðvitað að vera, að hugsa um sinn stað. Það er algerlega nýtt að Keflavíkurflugvöllur sé kominn yfir í Sandgerðisflugvöll en hv. þingmaður hugsar vel um sinn heimabæ og það er gott.

Þetta mun auðvitað koma upp í þessari umræðu allri og það má líka leiða líkur að því að með því að hækka lendingargjöld á Reykjavíkurflugvelli sem eru ekki nógu há að mínu mati núna og færa þau í það horf sem er á nágrannaflugvöllum okkar hvað varðar viðskiptaflugið muni viðskiptaflugslendingum í Reykjavík fækka og þær verða þá frekar í Keflavík — eða á Sandgerðisflugvelli eins og hv. þingmaður kýs að kalla hann — og þar verður þá kannski líka boðið upp á meiri þjónustu, þ.e. meiri möguleikar verða á að setja vélar í skýli.