135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:08]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það sætti ekki gagnrýni. Það varðaði almenna hagsmuni að halda uppi áætlunarflugi sem annars hefði verið óvíst að hægt hefði verið að gera. Það er rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að það hefur orðið mikil breyting á útgáfu bráðabirgðalaga eftir stjórnarskrárbreytinguna 1991. Áður fyrr voru bráðabirgðalög tiltölulega algeng en eftir þann tíma fátíð. Ég held að þetta sé í áttunda skipti síðan þá að sett eru bráðabirgðalög. Það er til bóta. Það segir okkur auðvitað hvað þingið var að gera á þeim tíma.

Fyrstu sex skiptin, ef það er rétt munað hjá mér að þetta séu áttundu bráðabirgðalögin núna, sem gripið var til þess að setja bráðabirgðalög voru það málefni sem voru almenn, vörðuðu almenna hagsmuni eða bar hátt í þjóðfélagsumræðunni þannig að það var mikill órói og krafa um breytingar sem bregðast þurfti við, t.d. með breytingu með bráðabirgðalögum á dómi Kjaradóms. Síðustu tvö skiptin hafa hins vegar bráðabirgðalög verið sett með afmarkaða hagsmuni í huga, vegna Stofnfisks fyrir 2003 og Þróunarfélags Keflavíkur 2007. Það segir beinlínis í aðfaraorðum bráðabirgðalaganna sem ég las upp áðan.

Þetta eru þröngir hagsmunir. Ég er ekki að gera lítið úr þeim í sjálfu sér en þeir eru ekki tilefni til þess að beita bráðabirgðalagavaldinu. Hvað hefði gerst ef ekki hefðu verið sett bráðabirgðalög? Annað hvort hefði þing verið kvatt saman og búið að setja lög eftir þrjá daga eða eitthvað slíkt eða að menn hefðu sett lögin seinna um haustið og þeir sem fóru í þessar íbúðir í haust hefðu áfram verið í sínu húsnæði, hvar sem það var hér á höfuðborgarsvæðinu. Þar hefði ekki verið neitt það ástand uppi sem ríkisstjórnin hefði þurft að bregðast við.