135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:11]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beindi til mín a.m.k. einni spurningu en mig langaði að nefna það hér í andsvari að ég held að komið hafi fram misskilningur hjá hv. þingmanni, í ræðu hans um það efni, hvað það varðar að stjórnarskráin veitir ríkisstjórn eða framkvæmdarvaldinu heimild til að setja bráðabirgðalög, þ.e. það er ekki þingið sem setur þessi lög heldur ríkisstjórnin. Um leið er það náttúrlega hennar að meta hvort hagsmunirnir séu brýnir o.s.frv. og uppfylli þau skilyrði sem stjórnarskráin setur. Þar af leiðandi er það ekki þingið sem setur þessi lög heldur ríkisstjórnin á sína ábyrgð.

Það er hins vegar komið í ljós í þessari umræðu að lagasetningin hefur mikinn stuðning á þinginu. Því er ekki hætta á þeim miklu pólitísku afleiðingum sem hæstv. forsætisráðherra lýsti að það hefði ef lögin hefðu ekki stuðning.

Kjarni málsins er vitaskuld þessi: Framkvæmdarvaldið hefur samkvæmt ákvæði í stjórnarskránni heimild til að setja bráðabirgðalög. Þar af leiðandi er það engin kvöð á ríkisstjórninni að tala við þingið heldur hefur hún heimild til þess að setja þessi lög. Það mundi hins vegar hafa miklar afleiðingar ef meiri hlutinn styddi ekki þá lagasetningu. Lögin eru að sjálfsögðu á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og það er hennar mat hvort setja eigi þessi lög.

Það er mikilvægt að þetta sé haft í huga vegna fyrirspurnar um hvort afstaða meiri hluta þingmanna stjórnarliðsins hafi verið skoðuð. Það hefur reyndar komið í ljós að mikill stuðningur var við málið, það er ekki vandamálið. En ræðum þetta á þeim nótum að þetta er heimild ríkisstjórnar til þess að setja bráðabirgðalög. Síðan er það þingsins að taka afstöðu til þess (Forseti hringir.) hvort staðfesta eigi lögin eða ekki. (Gripið fram í.)