135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:15]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sagði ekki í andsvari mínu að eðlilegt væri að það væri ekki kannað. Ég sagði einfaldlega að svona væri ákvæði stjórnarskrárinnar, þ.e. stjórnarskráin veitir ríkisstjórninni þessa heimild. Þannig liggur málið. Eins og hæstv. forsætisráðherra rakti ágætlega í andsvari sínu er alveg klárt að ef ríkisstjórnin síðan hefði ekki þann stuðning sem til þarf hefði það miklar alvarlega pólitískar afleiðingar, það er alveg klárt. Ég sagði aldrei að þetta væri eðlilegt, ég sagði að svona væri stjórnarskrárheimildin uppbyggð.

Ég sagði einnig að það lægi fyrir að mikill meiri hluti var fyrir málinu og mikill stuðningur við það. Það hefur einmitt verið dregið fram hér í þinginu. Ég vildi bara að það lægi fyrir hér að svona liggur málið og þannig er heimildin úr garði gerð. Það voru ekki mín orð að eðlilegt væri að kanna það ekki enda liggur fyrir að mikill stuðningur var við málið.