135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:18]
Hlusta

Frsm. minni hluta viðskn. (Atli Gíslason) (Vg):

Frú forseti. Við búum við þrískipt ríkisvald, löggjafarvald, dómsvald og framkvæmdarvald. Löggjafinn setur lög, framkvæmdarvaldið framkvæmir þau og dómsvaldið sker úr ágreiningi. Meðal annars hefur það gerst, þau vatnaskil orðið varðandi bráðabirgðalagasetningarákvæði stjórnarskrárinnar, að Hæstiréttur telur sig umkominn að leggja mat á það hvort hin brýna nauðsyn hafi verið fyrir hendi, fyrir því eru ný fordæmi. Við erum sem sagt að tala um meginregluna, löggjafarvald, framkvæmdarvald, dómsvald, og við erum að tala um undantekningu frá þessum meginreglum. Þetta er þröng undantekningarheimild en hún er til staðar, hv. þm. Lúðvík Bergvinsson.

Eftir stjórnarskrárbreytingarnar sem urðu 1991 var horfið til fyrra horfs varðandi þetta heimildarákvæði, þ.e. það sem stjórnarskrárgjafinn ætlaði sér þegar stjórnarskráin var sett. Farið hafði verið mjög frjálslega með þessa heimild en eftir 1991 hefur orðið gjörbreyting og skilningur fræðimanna, eins og ég lýsti í ræðu í 2. umr., hefur verið staðfestur. Þeir fræðimenn hafa eiginlega fengið uppreisn æru varðandi skoðanir sínar á því hvenær beita megi þessu ákvæði.

Þau átta dæmi sem eru eftir 1991 staðfesta þessa reglu og staðfesta þennan skilning að undanteknu einu eða tveimur dæmum. Rökstuðningurinn sem fram hefur komið fyrir setningu þessara bráðabirgðalaga snýst í raun upp í andhverfu sína, þ.e. hann færir fremur rök fyrir því að ekki hafi verið brýn nauðsyn fyrir setningunni í sumar. Einnig hafa komið fram rök fyrir því að ekki þurfi að staðfesta lögin, þau geti dagað uppi hér á þingi, enginn skaði sé við það skeður. Það var hin eðlilega framkvæmd, fara svo í nýja lagasetningu varðandi seinni áfanga.

Af hverju segi ég að röksemdir ríkisstjórnarinnar fyrir bráðabirgðalagasetningunni hafi snúist upp í andhverfu sína eða séu rök fyrir skoðunum mínum og hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar, sem hann hefur lýst svo vel og ég tek undir? Í fyrsta lagi rökstyður forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, setningu bráðabirgðalaganna með þáttum sem eru ekki rök, þ.e. að umræddar breytingar á raflögnum muni hafa verulegan kostnað í för með sér og Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. hafi ekki yfir slíkum fjármunum að ráða. Af hverju brá ríkisstjórnin ekki á það ráð að lána félaginu peninga til að klára þetta eða gera eitthvað allt annað? Fjárþörf einkafyrirtækis getur ekki ráðið því að löggjafarvaldinu sé kippt úr sambandi, það er útilokað. Við erum að tala um þrönga undantekningarheimild þar sem ríkir almannahagsmunir, ríkir þjóðhagslegir hagsmunir, verða að vera fyrir hendi, ekki dægurmálahagsmunir eins og hér er um að ræða.

Í öðru lagi er því haldið fram að knappur tími sé til stefnu og skortur sé á iðnaðarmönnum. Þetta hefur líka snúist upp í andhverfu sína vegna þess að lokið hefur verið við 94% af íbúðunum í þessum áfanga. Til að gera gott úr málinu og til að leita nú sátta og samlyndis, eins og Samfylkingin mælir gjarnan með í hátíðarræðum, (Gripið fram í.) eða gerði réttara sagt, er þá ekki einfaldast að leyfa frumvarpinu að daga uppi, það hefur þá náð tilgangi sínum?

Skortur á peningum eða skortur á iðnaðarmönnum getur aldrei réttlætt það að bráðabirgðaákvæðinu verði beitt. Ég er þeirrar skoðunar að herra forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, hafi brugðist hlutverki sínu, þ.e. að vera öryggisventill á stjórnarskrána. Ég lít svo á. Ekki gerði hann það í fjölmiðlamálinu. Ekki var síður ástæða til að bregðast við hér vegna þess að brotið er að mínu mati mjög augljóst.

Það er líka fleira sem kemur til. Ég hef sagt það í fyrri ræðu minni að verið sé að setja bráðabirgðalög til að bæta úr sleifarlagi framkvæmdarvaldsins. Það lá fyrir fyrir allmörgum árum að herinn væri að fara héðan þó svo að ýmsir hefðu farið á hnén og grátbeðið hann um að vera lengur. Í mars 2006 var þetta á hreinu og herinn fór í september 2006. Það var nægur tími til stefnu. Við það bætist svo að Neytendastofa áminnti stjórnvöld um að breyta þessum raflögnum í nóvember 2006 og ekkert var aðhafst. Ekkert er einu sinni aðhafst þegar sumarþingið var komið á, þá vissu menn fullkomlega í hvað stefndi. Nei, skilyrði 28. gr. stjórnarskrárinnar, um brýna nauðsyn, er alls ekki fyrir hendi og alls ekki eftir stjórnskipunarbreytinguna 1991.

Ég minni aftur á þessi vatnaskil Hæstaréttar. Nú er hægt að bera þetta mál undir Hæstarétt, hvort þetta mat framkvæmdarvaldsins hafi verið rétt eða ekki rétt. Að mínu mati fer því víðs fjarri og það blasir við að ef Hæstiréttur fengi þetta mál til umfjöllunar mundi hann ónýta þessa löggjöf. Ég ítreka aftur umfjöllun mína um skoðanir fræðimanna á þessu sviði. Ég vil líka benda á bréf Rafiðnaðarsambands Íslands, sem ég ætla ekki að lesa upp aftur, og röksemdir þeirra sem fylgdu minnihlutaálitinu.

Ég vil líka halda því til haga að ef ekki var brýnt að kalla þing saman í sumar, ef ekki þótti nógu brýn ástæða til þess, var ekki brýn nauðsyn á að setja bráðabirgðalögin samkvæmt 28. gr. Ég ítreka það sem kemur fram í áliti meiri hlutans, þar sem talið er að vitlaust hafi verið staðið að málinu, eðlilegra hefði verið að gera hitt og þetta. En að nota svo bráðabirgðalög til að bæta fyrir mistök, að berja í brestina, gegn því mælir stjórnarskráin

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson ætti að skýra það fyrir þingheimi af hverju Samfylkingin, og sérstaklega hv. þingmaður sjálfur, hefur skipt um skoðun frá því 2003.

Að lokum vil ég halda því til haga fyrir ríkisstjórnarflokkana að brýn nauðsyn er á ýmsum framkvæmdum á vellinum. Ég velti því stundum fyrir mér hvort það sé jafnvel eðlilegt að vera þar með skólastarf eins og staðan er. Brýn nauðsyn er á því að hreinsa svæðið af mengun, öskuhaugarnir þar eru t.d. grafalvarlegt vandamál. Þarna verður skóli og þarna verða íbúðarhús og þarna verða börn. Það var upplýst í heimsókn allsherjarnefndar til Landhelgisgæslunnar í morgun að hreinsun á sprengjum, sem eru þarna á mörgum svæðum, hefur legið niðri. Það er brýn nauðsyn á að klára slíka hreinsun og gera þær sprengjur sem þar eru óvirkar. Það sem er verra við þetta dæmi núna er að völlurinn er orðinn opinn. Þessi sprengjusvæði voru afgirt hér áður fyrr en eru það ekki í dag. Gagnvart þessum málum, menguninni og sprengjunum, er brýn nauðsyn á að drífa í framkvæmdum.

Ég ítreka svo að lokum að skilyrði 28. gr. stjórnarskrárinnar, um brýna nauðsyn, eru fjarri því að vera uppfyllt gagnvart þessu dægurmáli.