135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:37]
Hlusta

Frsm. minni hluta viðskn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Almannahagsmunir, ekki almannahagsmunir. Ég spyr: Ef þetta eru almannahagsmunir, hvað næst? Hvers konar fordæmi er verið að skapa með þessu? Það er verið að skapa fordæmi fyrir því að farið sé með stjórnarskrána af mikilli léttúð, svo vægt sé til orða tekið.

Ég vil spyrja hv. þm. Lúðvík Bergvinsson: Fyrst þessu verki er nú farsællega lokið af hverju eru lögin ekki látin daga uppi og þurfi lagasetningu fyrir seinni áfanga þá fái slíkt frumvarp þinglega meðferð? Það hefur líka gerst með þessum bráðabirgðalögum og setningu þeirra að málinu er hraðað í gegnum þingið, málinu er hraðað í gegnum þingnefnd. Það vannst ekki tími til að kalla á álit manna á þessu máli sem er þó veigamikið í öllu nefndarstarfi þegar stjórnarskráin á í hlut, afar veigamikið. (Gripið fram í.) Ég kaus að biðja um upplýsingar og ég fékk þær ekki. Ég skilaði síðan minnihlutaáliti en ég er bara að segja að fyrst þessi tímapressa var á málinu, sex vikur, þá varð að hraða því í gegn. Það er einfalt mál að láta frumvarpið hreinlega daga uppi og fá upplýsingar og gögn. Ég leitaði eftir frekari gögnum í gærkvöldi um þetta en ég hef ekki fengið þau enn þá. Þetta kallar líka á að málsmeðferð verður lélegri og við getum ekki tekið af allan vafa um þetta mál.