135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

notkun raflagna og raffanga á Keflavíkurflugvelli.

65. mál
[16:42]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þau lög sem virðast nú vera orðin umræðuefnið eru lögin 2003 versus 2007. Það kom fram hjá Hagstofunni að þau útflutningsverðmæti sem menn voru að reyna að bjarga höfðu verið u.þ.b. 5 milljónir og málið snerist um það. Það voru útflutningsverðmæti sem lutu að útflutningi sérstaks fyrirtækis sem réttlættu þetta.

Þetta mál snýst hins vegar um það að herinn hvarf brott, eins og hér hefur verið rakið, 1. mars 2006. Það er verið að byggja upp starfsemi á Keflavíkurflugvelli og bregðast við þeim fjölda starfa sem glötuðust og styðja við bakið á því samfélagi sem þar missti spón úr aski sínum. Um það snýst þetta mál og það snerist einnig um það að þessi starfsemi gæti farið af stað á haustdögum. Það snýst líka um það að upplýsingar um nauðsynina komu ekki fram fyrr en nú en borið saman við frægt mál árið 2003 þá lá fyrir þann vetur, áður en bráðabirgðalögin voru sett, frumvarp í þinginu um að afgreiða málið.

Einhvern veginn verður þessi umræða skrýtnari og skrýtnari eftir því sem henni vindur fram því að hv. þingmaður sem biður menn að svara spurningum sínum studdi þetta tiltekna mál 2003 en nú má hann vart mæla vegna viðhorfa sinna til þessa máls. Ég held að það hljóti að vera hlutverk hv. þingmanns að útskýra hverju það sætir, mér finnst það vera kjarni málsins. Ég hef farið yfir það hvers vegna ég tel þetta mál vera annars eðlis en hitt en hv. þingmaður hefur á engan hátt (Forseti hringir.) reynt að gera tilraun til að útskýra hvernig standi á hástemmdum ræðum hans hér og nú.