135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

greiðslur Atvinnuleysistryggingasjóðs vegna fiskvinnslufólks.

162. mál
[17:30]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka síðasta ræðumanni fyrir jákvæðar undirtektir við það frumvarp sem ég hef hér mælt fyrir. Hv. þingmaður kom með ýmsar ábendingar og athugasemdir að því er málið varðar, þó ekki við frumvarpið sjálft nema að litlu leyti. Hv. þingmaður nefnir að rýmka þurfi meira þann sveigjanleika sem þó er í lögunum og gagnrýnir að þetta sé tímabundið ákvæði en ekki varanlegt. Því er þá til að svara að eins og fram kom í máli mínu áðan hafa dagarnir ekki verið að fullu nýttir sl. tvö ár en ég nefndi líka að á því kynni að vera breyting og ég er raunverulega nokkuð viss um að svo hafi verið núna síðari hluta ársins. Ég nefndi líka að við munum auðvitað fylgjast með þessari þróun og hvernig þetta dugar á þeim tíma sem fram undan er og við höfum rætt það við Starfsgreinasambandið að við munum vera í samráði við það um að fylgjast með þróuninni og þá verður auðvitað brugðist við því ef ástæða er til.

Hv. þingmaður nefndi líka sveitarfélögin í þessu sambandi og að það hefði verið eðlilegt að veita framlög til þeirra. Nú er það svo að í þeim mótvægisaðgerðum sem boðaðar hafa verið verður 750 millj. kr. varið til sveitarfélaganna sem verða fyrir tekjumissi vegna skerðingarinnar samkvæmt nánara samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Útfærslan á þeim fjármunum verður auðvitað unnin í fullu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga en framlaginu er ætlað að bæta tekjumissi, bæði hafna vegna löndunargjalda og sveitarsjóða vegna minni útsvarstekna samfara minnkandi þorskafla. Þetta verður nánar útfært í samráði við sveitarfélögin.

Síðan vil ég nefna aðra aðkomu sveitarfélaganna að þessu máli sem er í gegnum vinnumarkaðsráðin sem ég nefndi í framsögu minni. Verkalýðshreyfingin og sveitarfélögin eiga bæði sæti í þessum vinnumarkaðsráðum og það er gert ráð fyrir þó nokkrum fjármunum sem fóru í gegnum Vinnumálastofnun. Ef ég man rétt voru það um 60 millj. kr. sem eru að vísu ekki miklir fjármunir en munu þó eitthvað vega upp á móti áhrifunum af þessari skerðingu. Það kemur í hlut vinnumarkaðsráðanna um allt land, við lítum til þess að þau geri tillögur um það hvernig við best nýtum þá fjármuni sem koma í gegnum Vinnumálastofnun. Ég hygg því að í þeim áformum sem eru fram undan og þeim tillögum sem voru gerðar sé að verulegu leyti komið til móts við þau sjónarmið sem hv. þingmaður setti hér fram við 1. umr. þessa máls.