135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[18:04]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það gleður mig að við erum þó sammála um það atriði að ástæða geti verið til þess í nútímanum að hafa áhyggjur af tilhneigingu stjórnvalda til vöktunar og upplýsingasöfnunar. Ég held að við ættum þá ekki að gleyma einum hlut, sem er hinn rafræni veruleiki sem við búum við. Möguleikarnir til að ekki bara safna heldur líka geyma og vinna úr alls konar persónulegum upplýsingum eru nánast ótæmandi í dag vegna hinnar rafrænu tækni og þess þá heldur er ástæða til að fara varlega.

Varðandi spurninguna: Hef ég kært einhverja sem ég tel að berist á langt umfram það sem þeir ættu að geta ef skattframtal væri rétt? Svarið er nei, ég hef ekki gert það, ég hef ekki farið út í það sem einstaklingur að kæra — en ég hef hvatt skattyfirvöld til að skoða slíka hluti, það hef ég gert.