135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[18:15]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Nei, vegna þess að ég tel að hér rugli hv. þingmaður saman hlutum sem ekki eru sambærilegir. Ákvæði um bankaleynd, fyrir þeim standa gild rök og hafa lengi gert. Gögn sem lögregla hefur undir höndum eru að sjálfsögðu af allt öðrum toga og miklu viðkvæmari. Heilbrigðisupplýsingar eru af allt öðrum toga og miklu viðkvæmari. Trúnaðarsamband skjólstæðinga lækna og lögmanna er allt annars eðlis en það sem hér á í hlut.

Við erum hér að tala um að hægt sé að sannreyna hvað menn greiða í opinber gjöld af launum sínum, þeim launum sem þeir eiga að hafa, og þá kemur til sögunnar það aðhaldshlutverk sem hv. þingmaður var líka að ræða í lokin. Ég held að almenningsálitið, að umfjöllun fjölmiðla, að opinber umræða sé hluti af heildarsamhenginu sem við verðum að hafa í huga, þar á meðal því í hvaða umhverfi Alþingi er þegar það setur lög og reglur í þessum efnum, ákvarðar um skattaleg málefni, hvað er hæfilegt að menn greiði og hvernig á að dreifa byrðunum. Er ekki sanngjarnt að þeir sem hafa hæstu launin borgi meira í skatta en þeir sem hafa engin laun eða engan afgang þegar þeir eru að reyna að draga fram lífið?

Það er þetta samhengi sem við getum ekki slitið hlutina úr og ég tel að þar fari hv. þingmaður villur vegar þegar hann reynir að einangra þetta fyrirbæri sem eitthvert einkamál viðkomandi manna. Við erum ekki að tala um að fara hér inn í einkalíf fólks með neinum öðrum hætti en þeim að opinber álagning gjalda á grundvelli þeirra launa sem þeir hafa talið fram liggi fyrir í stuttan tíma þannig að menn geti borið þá hluti saman og sótt upplýsingar um það. Það hefur mikið gildi að hafa þær upplýsingar uppi á borðinu eins og ég gæti rökstutt í ítarlegu máli ef út í það væri farið.