135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[18:26]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það gleður mig að heyra umhyggju hv. flutningsmanns fyrir þeim sem minnst hafa milli handanna. Ég held hins vegar að þetta sé ekki sérstakt kappsmál þess hóps og mundi frekar æskja liðsinnis hans í því að hækka persónuafslátt eða koma með öðrum hætti fram hér á Alþingi með úrræði sem virkilega breyta með einhverjum hætti kjörum þess fólks.

Það er rangt, sem hv. þingmaður sagði, að ég væri að gera honum upp þær skoðanir að hann væri að verja hér hag auðmanna. Ég þykist nú blessunarlega hafa grun um að þeim auðmönnum sem við höfum í dag, sem láta myndarlega af hendi rakna til samfélagslegra málefna, sé ekkert of kært að þetta frumvarp sé lagt fram. Ég held að þeir séu meiri menn en svo að þurfa að fá einhvers konar skjól fyrir starfsemi sína. Þeim hefur gengið mjög vel, þeir berast á og þeir standa skil gerða sinna. Það er það sem ég kann vel við þá menn sem nú eru að afla fjár og koma með til baka í íslenskt samfélag. Þeir veita þeim í miklum mæli í samfélagsleg verkefni og það er lofsvert.

Að síðustu, virðulegi forseti, snýst þetta mál fyrst og fremst um þá almannahagsmuni að upplýst sé með þessum hætti um kjör. Það er einfaldlega þannig að kall tímans er að auka gagnsæi að þessu leyti. Ég hlýt þá að spyrja hv. 1. flutningsmann: Er hann þá á móti ákvæðum kaupahallarlaga um að skylda fyrirtæki til að upplýsa um launakjör helstu stjórnenda? Er hann þá á móti því, sem er vaxandi tilhneiging í öllum lýðræðisríkjum í kringum okkur, að auka með þeim hætti ábyrgð stjórnenda gagnvart hluthöfum og gagnvart samfélaginu í heild?