135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[18:31]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. flutningsmaður segir að við eigum ekki að byggja upp samfélag sem byggist á því að menn séu með nefið ofan í hvers manns koppi. Í framsöguræðu gat hann þess að fjölmiðlaumræðan sem kæmi í kjölfar opinberrar birtingar skattskrár væri helstu rökin gegn þessu fyrirkomulagi. Það er nákvæmlega tilgangurinn með þessu kerfi, þ.e. að almenn umræða verði um uppbyggingu launakerfis í landinu. Það er mjög í anda nýrra viðhorfa jafnt í Evrópu sem í Bandaríkjunum.

Ég vil minna hv. þingmann á að það er ekki alls kostar rétt sem hann sagði að upplýsingar um launakjör æðstu starfsmanna skráðra fyrirtækja færu eingöngu til hluthafa. Þær fara sem opinber tilkynning á hlutabréfamarkaðinn vegna þess að þetta eru upplýsingar sem eiga erindi til markaðarins alls. Það er grundvallarviðhorfið, jafnt í bandarískum rétti sem evrópskum, og ástæðan er sú að það er verið að efla stjórnunarlega ábyrgð fyrirtækjanna og það er verið að auka vald hluthafa. Með sama hætti er það mjög mikils virði í samfélagi að almenningur viti um uppbyggingu launakerfisins, (Gripið fram í.) hvaða laun kjörnir fulltrúar fá og hvaða laun þeir menn fá eða skammta sér sem síðan telja sig þess umkomna að tala meira og minna í umboði þess sama fólks daginn út og daginn inn. Það eru almannahagsmunir af núverandi kerfi og um þá verðum við að standa vörð.