135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[18:32]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Frú forseti. Það mál sem hér er til umræðu þykir mér einkennast af nokkru auðmannadekri og undarlegum vilja til að standa í bókabrennum á 21. öldinni. Hafi hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og hans meðflutningsmenn sérstaka þörf fyrir að ávíta þá menn sem staðið hafa að því að breiða út skattskrár með fjölmiðlaumfjöllun geta þeir snúið sér til undirritaðs, 8. þm. Suðurk., því að ég hef í mörg ár haft af því nokkra atvinnu á hverju ári að fara í gegnum skattskrár og birta síðan nokkrar blaðsíður í blaði sem ég gef út á Selfossi. Ég get sagt frá því hér að þetta er aðhald sem hefur raunverulega þýðingu.

Vegna þeirrar umræðu sem var hér fyrr, þar sem hv. þm. Pétur Blöndal spurði m.a. hvort ræðumaður, sem hér var, hefði kært einstök mál og hvort það hefði haft — ef ég skildi þá umræðu rétt — einhvern raunverulegan tilgang: Ég hef séð það oftar en einu sinni að það hefur áhrif ef þær upplýsingar birtast í fjölmiðlum, um menn sem hafa það miklu betra en almennt getur talist, að þeir séu á vinnukonuútsvari. Það er fátíðara að menn láti það henda sig mörg ár í röð. Það eru sérstakar persónur sem láta það yfir sig ganga mörg ár í röð að vera með vinnukonuútsvar en aka um á margra milljóna króna jeppum og búa í glæsihöllum. Miklu fleirum finnst þetta óþægilegt og þetta er það skattaeftirlit sem mest virkar í okkar landi.

Ekki þar fyrir að slæleg framtöl eru vandamál á Íslandi. Við vitum vel af því að það eru alls ekki allir sem telja fram allar tekjur sínar og á meðan svo er tel ég fráleitt að samþykkja frumvarp eins og það sem hér liggur frammi.

Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vék að því að með birtingu upplýsinga af þessu tagi væri fyrst og síðast verið að ala á gægjuþörf. Mér þykir sú fullyrðing nokkuð merkileg og hlýt að taka hana til athugunar, ég sem hef eytt mörgum vinnudögum í að liggja ofan í skattskrá. Ég velti því fyrir mér hvort ég hafi þá verið að fróa einhvers konar kenndum sem mér hafa ekki verið kunnar áður. Ég fullyrði að hugtakið gægjuþörf, í þeirri merkingu sem ég hef yfirleitt lagt í það hugtak, eigi alls ekki við í þessum efnum. (Gripið fram í.) Ef gægjuþörf er með þessum hætti vandamál hjá þjóðinni verður ekki best tekið á því með því að hætta að birta skattskrá. Taka þarf á því á öðrum vettvangi og svo er raunar um fleiri vandamál sem nefnd hafa verið í þessu samhengi, svo sem eins og að það brjóti gegn friðhelgi einkalífs að birta slíkar upplýsingar um — svo að ég vitni, með leyfi forseta, orðrétt í ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar — „það viðkvæmasta í lífi hvers og eins“.

Mér þykir það merkilegt samfélag ef það viðkvæmasta í lífi okkar, og það sem okkur þykir verst að komi fyrir almenningssjónir, sé það hvað við höfum af krónum og aurum í hverjum mánuði. Það fólk er í mínum huga ekki — ja, það má segja um það eins og stundum er sagt í Hreppunum: Það er þá alla vega ekki mjög bókmenntalega sinnað fólk, sem ekki á sér merkilegri eða viðkvæmari hluti í lífi sínu en launaseðilinn. Ég held að það eigi að vera hverjum manni feimnislaust að tala um það hvað hann hefur í tekjur.

Það gætir í rauninni nokkurrar mótsagnar, sem sannfærði mig um að málið er frekar sprottið af auðmannadekri en mannréttindabaráttu, að hv. flutningsmaður, Sigurður Kári Kristjánsson, var ekki til í að beita sér fyrir því að verðbréfafyrirtæki hættu að birta laun starfsmanna sinna. Ef upplýsingar um laun eru raunverulega það viðkvæmasta í lífi hvers manns — viðkvæmt þá væntanlega á sama hátt og að birtar væru af okkur óviðurkvæmilegar myndir eða viðkvæmt á sama hátt og að ruðst væri inn á heimili okkar — eru í rauninni engin rök fyrir því að starfsmenn hlutafélaga þurfi að þola slíkan órétt af vinnuveitendum sínum að þeir séu að flangsa með slíkar tölur. Það eru engin rök fyrir því að einhver viss þjóðfélagshópur, svo sem eins og yfirmenn í félögum á markaði, eigi þá ekki rétt á friðhelgi einkalífs.

Sjá menn ekki hina algeru mótsögn í þessum málflutningi? Gildir þá einu hvort verðbréfafyrirtækin muni síðan dreifa þeim upplýsingum til alls almennings — sem ég þekki ekki til enda lítill verðbréfamaður — eða einvörðungu til hluthafa í því tiltekna fyrirtæki. Í báðum tilfellum væri verið að dreifa til óskyldra aðila, jafnvel í öðrum sóknum, viðkvæmustu upplýsingum um umrædda einstaklinga? Hvar er eiginlega samræmið í þessum málflutningi?

Mér þóttu reyndar allrar íhugunar verð þau orð hv. þingmanns að einstaklingar geti orðið fyrir áreiti og aðkasti vegna lágra launa. Ég get fyllilega tekið undir að því atriði mættum við velta fyrir okkur. Hér hefur verið vikið að því af hverju ekki eigi að birta líka upplýsingar um bætur og annað slíkt. Nú hef ég ekki skattskrána fyrir framan mig en ég held að upplýsingar um vissan hluta af bótum séu birtar. Því er bara einfaldlega þannig varið að blöð taka mjög takmarkaðan hluta þeirra upplýsinga til birtingar. Í skattskránni, sem við fáum að lesa inni á skattstofum, eru miklu fleiri upplýsingar en þær sem almennt fara í blöð. Ég held t.d. að oft sé hægt að lesa út upphæð barnabóta. Kannski fellur það stundum inn í einhverja frádráttarliði og erfitt getur reynst að greina það í sundur en stundum er alveg hægt að sjá það.

Það má velta því fyrir sér hvort fólk með tekjur undir ákveðnu marki eigi að vera undanskilið þessu. Ég vil samt benda á í þessu sambandi að jafnvel þó að reynslan sé slík frá Noregi — við erum nú oft taldir skyldir Norðmönnum en erum þeim þó ólíkir í mörgu — er vandinn ekki til staðar hér á landi. Var þó til siðs til skamms tíma að listi yfir þá hæst launuðu birtist ekki bara í blöðum heldur prentaði fyrirtæki hér í borg skattskrána í heild sinni — Letur minnir mig að það fyrirtæki hafi heitið, einhvern tíma kom ég í það. Þetta er nú aflagt fyrir nokkrum áratugum en ég held að það væri þá hægt að rifja það upp með þeim sem muna langt aftur hvort einhvern tíma hafi orðið vart við þennan þátt vandamálsins. Það er engin ástæða til, og síst skyldu talsmenn frjálshyggju tala fyrir því, að semja lög hér til að bregðast við vandamálum sem aðeins hefur orðið vart í Noregi, með fullri virðingu fyrir Norðmönnum.

Varðandi eftirlitsþáttinn hef ég lengi haft þá skoðun að eftirliti með skatttekjum og framtölum manna sé ábótavant á Íslandi, þar þurfi að gera meira en gert er í dag. Ég er líka handviss um að færi frumvarp eins og það sem hér liggur frammi í gegnum hið háa Alþingi og yrði að lögum yrði krafan um skattaeftirlitið enn harðari og þörfin yrði enn meiri. Æskilegast er náttúrlega hið siðferðislega aðhald sem birting skattskránna er í samfélaginu, því að þetta er mikið aðhald fyrir alla. Það þarf í rauninni giska harðsvíraðan mann til þess að telja árum og áratugum saman fram mjög lág laun en lifa hátt vitandi að það mun geta ratað á síður fjölmiðla. Í því er aðhaldið fólgið, svo einfalt er þetta. Það er ekkert ósanngjarnt við það aðhald og ekkert rangt í mínum huga.

Margt bendir til að við náum frekar árangri í jafnrétti launa milli kynja með þessu móti. Ég get algjörlega tekið undir þau orð hv. þm. Árna Páls Árnasonar, að frumvarp það sem hér liggur frammi gengur mjög gegn þeim ríkjandi viðhorfum og þeirri viðleitni sem almennt er í samfélaginu og vissulega þeirri viðleitni sem er í stjórnarsáttmálanum.

Þar fyrir utan er hægt að nefna að með frumvarpinu er verið að brjóta niður ýmis menningarleg atriði í samfélaginu. Menn hafa haft nokkur metorð af því í samfélögum að vera skattakóngar, það fylgir því ákveðin upphefð að vera talinn skattakóngur tiltekinnar sveitar eða tiltekins bæjar og ævinlega skyldu menn fara varlega í að brjóta niður gamla og góða þjóðhætti.