135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[18:46]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F) (andsvar):

Ég þarf enn að grufla í sál minni.

(Forseti (ÁRJ): Ég bið hv. þingmann um fylgja reglum um ávarp.)

Frú forseti. Nú hef ég upplýsingar um það frá hv. þm. Sigurði Kára Kristjánssyni að ég hafi ekki einasta gægjuþörf í þessu máli heldur einnig sýniþörf. Ég veit ekki hvort sálgreining af því tagi þjóni miklum tilgangi á hinu háa Alþingi en skal taka athugasemdir hans til skoðunar.

Varðandi það að mér beri að skammast mín fyrir að hafa haft tekjur af því að selja blað með listum yfir skattgreiðendur þá er ég því mati hv. þingmanns algerlega ósammála. Það er brýnt aðhaldshlutverk fjölmiðla að veita upplýsingar sem þessar. Það er dapurlegt að heyra hv. þingmann tala á þeim nótum að fjölmiðlar eigi að skammast sín fyrir upplýsingagjöf til borgaranna, upplýsingagjöf sem hefur raunverulegt hlutverk til að viðhalda aðhaldi að þeim sem annars geta gert sér að leik að hafa háar tekjur en telja lítið sem ekkert af þeim fram.

Varðandi tekjuhlutann hjá mér þá hef ég svo sem aldrei talið það saman hversu miklar þær tekjur eru en ég reikna nú með að þær hafi aldrei slagað upp í há laun, fyrir að sitja yfir skattskránum.