135. löggjafarþing — 18. fundur,  5. nóv. 2007.

tekjuskattur.

36. mál
[18:49]
Hlusta

Flm. (Sigurður Kári Kristjánsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Þá erum við hv. þm. Bjarni Harðarson ósammála um hvort það sé sérstaklega virðingarverð atvinna að gefa út blöð sem upplýsa um laun fólksins í landinu. Mér finnst það ekki smekklegt og þaðan af síður menningarlegt úr því að hv. þingmaður talaði um menninguna.

Ég vil taka skýrt fram að ég og allir flutningsmenn þessa frumvarps erum þeirrar skoðunar að menn eigi að borga skatta í samræmi við þær reglur sem hér gilda. Það er alveg ljóst. Við erum ekki málsvarar einhverra skattsvika. Síður en svo. Ég tel að ef einhverjir menn skjóti undan skatti að þá eigi skatturinn að hafa hendur í hári þeirra. Hafi skatturinn ekki nægileg úrræði til þess að gera það þá þurfum við að taka á þeim málsmeðferðarreglum sem skatturinn hefur gagnvart skattsvikurum. Þetta er alveg ljóst.

Ég er hins vegar þeirrar skoðunar, öfugt við hv. þm. Bjarna Harðarson, að við eigum að eftirláta skattyfirvöldum, þar til bærum aðilum, að sjá um það aðhald sem hv. þingmaður gerir að umræðuefni í ræðu sinni, aðhald gagnvart því að einstaklingarnir, skattgreiðendur hér í þjóðfélaginu, greiði það sem þeim ber að greiða.

Ég er á móti því að hv. þm. Bjarni Harðarson, blaðaútgefandi, hafi eitthvert hlutverk í þeim efnum. Hann hefur ekkert vald til þess og á ekki að hafa neitt vald til þess. Ég spyr: Er hv. þingmaður sammála mér um að skattyfirvöld eigi að fara með skatteftirlit en ekki aðrir? Ef hann er ósammála því, hvaða völd hafa hinir þeir sem hv. þingmaður vill hugsanlega (Forseti hringir.) að fari með slíkt vald? Hvaða völd hafa þeir og umboð til þess?