135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

tekjutap hafnarsjóða.

39. mál
[14:02]
Hlusta

Flm. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að koma inn á orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar. Við framsóknarmenn höfum lagt til að hluti af því fjármagni sem fer til mótvægisaðgerða fari til þessara tilteknu verkefna. Þar með erum við ekki að leggja blessun okkar yfir hversu lág heildarupphæðin er. Framsóknarflokkurinn hefur lagt fram mjög mótaðar og heilsteyptar tillögur sem miða að því að heildarfjármagn til mótvægisaðgerða verði nokkru hærra. Við höfum einnig áhuga á að ekki verði allir þeir hlutir skilgreindir sem mótvægisaðgerðir sem nú eru skilgreindir þannig. Eins og hv. þm. Jón Bjarnason þekkir vel af samstarfi okkar í fjárlaganefnd er erfitt að greina á milli hvenær unnið er í venjulegri fjárlagagerð og hvenær að sérstakri mótvægisfjárlagagerð.

Varðandi þau orð að hér hafi farið í gegn vond lög um hafnirnar fyrir atbeina Framsóknarflokksins þá ætla ég ekki að taka afstöðu í því tiltekna máli. Ég held að það geti vel verið svolítið til í því að margar af höfnum á landsbyggðinni eigi nokkuð erfitt uppdráttar undir hinum nýju reglum. En það er æskilegt að hv. þm. Jón Bjarnason og aðrir sem hér tala geri sér grein fyrir því að þótt eitthvað hafi verið samþykkt á síðasta kjörtímabili þá þarf það ekki að standa til eilífðarnóns. Lögum má breyta. Þess vegna ákvað þessi þjóð að hafa enn og aftur kosningar og að enn og aftur skyldi skipað Alþingi vegna þess að málum var á síðasta kjörtímabili ekki verið skipað til endanlegs horfs. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að halda uppi varnarræðu fyrir fráfarandi ríkisstjórn.