135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

tekjutap hafnarsjóða.

39. mál
[14:17]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Tillaga hv. þm. Bjarna Harðarsonar og félaga er rökrétt og skynsamleg. Það er engin spurning að við þá skerðingu sem á sér stað í þorskafla mun þrengja mjög að mörgum höfnum landsins. Hafnir landsins eru lífankeri þjóðarinnar og auðvitað ekki síst fólksins sem býr í sjávarbyggðunum.

Það er því miður þannig, virðulegi forseti, að það er komin veruleg gjá í mörgu milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Sumt af því virðist óafvitandi, sumt af því virðist stafa af einhverjum lobbíisma sem á sér stað hér og þar. Jafnvel er það svo fáránlegt að tekin var ákvörðun um það á hv. Alþingi að fella úr gildi þann þátt sem lýtur að hafnalögum. Nú hefur þeirri niðurfellingu verið frestað til 2011 að því er sagt er í tengslum við þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur kynnt vegna niðurskerðingar í þorski. En það er engin spurning að þessum þætti verður að breyta. Þetta er stór liður, miklu stærri liður en við fjöllum hér um í bætingu á tekjum hafnanna. Þetta er einfaldlega spurning um það hvort höfnum landsins verður viðhaldið.

Ég er ekki að tala um að það þurfi að fjölga höfnum á Íslandi, það er ekki meginvandamálið, en það þarf að tryggja að þær séu í lagi. Þessar 800 millj. sem hafa farið á ári í hafnaáætlun í allar hafnir landsins eru ekki stór peningur en þær hafa ráðið úrslitum um það að menn hafa þó getað haldið sjó í hinum smærri byggðum landsins.

Það er svo fáránlegt að það er í rauninni í gegnum hafnasamlögin og hafnasamböndin sem þessi tillaga kom inn á hafnasambandsþing þannig að heimamenn sjálfir víða um landið bregðast og kyngja tillögum frá hinum voldugu aðilum Faxaflóahafna. Það er ótrúlegt en engu að síður staðreynd. Hv. alþingismenn geta ekki horft upp á að það sé verið að murka lífið úr því sem byggðin í sjávarþorpunum byggist á, höfninni, möguleikum hennar til að skapa þá atvinnu sem þarf til að hægt sé að búa á þessum stöðum.

Þetta er grafalvarlegt mál sem þarf að fylgja eftir. Tillaga hv. þm. Bjarna Harðarsonar er spor í þá átt að bæta þarna úr, bregðast við á eðlilegan hátt. Alveg eins og að greiða þarf atvinnuleysisbætur til þeirra sem missa atvinnu þarf að greiða bætur höfnum landsbyggðarinnar sem nánast allar eru veikar, standa mjög höllum fæti, veikar fjárhagslega. Í rauninni eru kannski bara tvær hafnir sem standa fjárhagslega vel, auðvitað höfn höfuðborgarinnar, Faxaflóahafnir, sem hefur gríðarlegar tekjur og sjálfvirka tekjusköpun á meðan hafnir austan lands, norðan og vestan búa við mjög þrönga stöðu. Ég fagna þessari tillögu og ábendingu hv. þm. Bjarna Harðarsonar og tel hana standa fullkomlega undir rökum.