135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

tekjutap hafnarsjóða.

39. mál
[14:22]
Hlusta

Valgerður Sverrisdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég vildi segja hérna nokkur orð sem einn af flutningsmönnum þessa máls. Ég vil byrja á að þakka síðasta ræðumanni, hv. þm. Árna Johnsen, fyrir stuðning við tillöguna og það hvað hann var afgerandi í afstöðu sinni með þessu máli og þar af leiðandi gegn ríkisstjórninni sem hann styður þó væntanlega, eða ég hefði reiknað frekar með því. Það er óvanalegt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins tali svona skýrt gegn aðgerðum sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á og þá er ég að tala um þær mótvægisaðgerðir sem gripið var til af hálfu ríkisstjórnarinnar og hafa verið til umfjöllunar um allt land á síðustu vikum og mánuðum.

Því er ekki að neita að a.m.k. í mínu kjördæmi eru gríðarleg vonbrigði með þessa tillögu og fólk áttar sig ekki á því á hvaða vegferð ríkisstjórnin er þegar hún kemur fram með tillögur sem þessar sem snúa að engu leyti — ég leyfi mér að segja það — að þeim sem verða fyrir þessari miklu skerðingu. Ég viðurkenni alveg að það er ekki auðvelt fyrir ríkisstjórn að bregðast við þegar svona mikill samdráttur blasir við í þorskveiðum. Þær tillögur sem birtust voru settar fram að mínu mati af mikilli vanþekkingu á aðstæðum á landsbyggðinni.

Þessi tillaga hér gengur út á það að styrkja hafnirnar og sveitarfélögin líka sem verða fyrir mestu skerðingunni í gegnum jöfnunarsjóðinn. Svo vorum við framsóknarmenn með aðra tillögu líka sem varðar sjómennina beint og fiskvinnslufólkið sem tapar vinnu. Fréttir hafa birst á síðustu vikum um það hvernig fyrirtækin eru að bregðast við. Það er gríðarlegur fjöldi manna sem missir vinnuna á þessum stöðum sem voru veikir fyrir, margir hverjir, þó að ég haldi því fram að ýmislegt hafi horft til betri vegar á síðustu árum á landsbyggðinni og þeim stöðum hafi í rauninni fækkað þar sem maður virkilega hefur áhyggjur af byggðinni. Þeim hefur fækkað en þeir eru til staðar.

Einmitt í dag eru í fréttum skilgreind nokkur sveitarfélög sem munu fara hvað verst út úr skerðingunni. Að mati þeirra sem rannsakað hafa málið kemur þar allra verst út lítið sveitarfélag, Grímsey. En það er svo gott að í Grímsey býr ákaflega öflugt fólk, öflugt samfélag þótt fámennt sé, sem ætlar sér ekki að gefast upp enda væri það mikill missir fyrir þetta þjóðfélag ef byggðin legðist af í Grímsey. Hún er glæsileg og skiptir miklu máli upp á fjölbreytileika samfélagsins og okkar landsmanna. Ég ætla ekki að nefna fleiri staði þótt ég gæti gert það.

Þetta er sem sagt viðleitni af hálfu okkar framsóknarmanna til að sýna hug okkar í þessu máli og sýna hann í verki með því að leggja fram þetta mál. Við teljum að gera hefði þurft betur en ríkisstjórnin gerði með tillögum sínum og við væntum þess að sjálfsögðu að það sé von til þess að ríkisstjórnin muni koma fram með fleiri tillögur.

Mér hefur heyrst á hæstv. ráðherrum sem hafa tjáð sig um þetta að ekki sé þar með sagt að ekki eigi eftir að gera betur. Þetta er þá eitt af því sem gæti komið til greina í þeim efnum. Auk þess höfum við lagt áherslu á, eins og fyrsti flutningsmaður kom inn á í framsögu sinni, að efla þurfi þorskeldi og að ríkisvaldið hafi ákveðnu hlutverki að gegna í þeim efnum. Vissulega eru útgerðarfyrirtækin burðarásinn í þeirri atvinnugrein og mæðir mest á þeim, þau skipta mestu máli í sambandi við það að efla þessa atvinnugrein. Ríkisvaldið getur samt komið með útgerðarfyrirtækjunum að því að efla þorskeldi og við teljum það mikilvægt. Við erum með svo mikla þekkingu á því sviði og samhliða samdrætti í veiðum væri mjög skynsamlegt að stíga ákveðin skref í sambandi við þá atvinnugrein.

Það vill svo vel til að á morgun mun ég eiga orðaskipti við hæstv. sjávarútvegsráðherra um þorskeldi hér í fyrirspurnatíma og er mjög spennt að heyra hvað hann ætlar að gera. Hann hefur látið þau orð falla að ríkisstjórnin hafi uppi áform um einmitt það.