135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

tekjutap hafnarsjóða.

39. mál
[14:30]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er nú ekki hægt að láta það fram hjá sér fara að ræða aðeins það mál sem hér er á dagskrá, tillögu til þingsályktunar um að auka tekjur hafnanna. Það mál er angi af þeim meiði að aðgerðir ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum, og ekki síst nú með niðurskurði þorskkvótans, eru að draga þróttinn úr byggðinni með margvíslegum hætti. Í þingsályktunartillögunni er kannski eingöngu verið að tala um tekjustreymið til hafnanna sjálfra. Þótt þær séu vissulega stór og mikill þáttur í hverri sjávarbyggð þá er það nú samt atvinnan sjálf sem skiptir öllu máli fyrir sjávarbyggðirnar, þ.e. að geta haldið úti eðlilegri sjósókn og eðlilegum aflabrögðum. Það hefur verið undirstaðan í öllum minni sjávarbyggðum landsins alla tíð og verður vonandi áfram þó að nú ríki vægast sagt talsvert svartnætti í þeirri grein.

Það vita allir í þessum þingsal hvaða afstöðu við í Frjálslynda flokknum höfum tekið til tillagna ríkisstjórnarinnar, til ákvörðunar sjávarútvegsráðherra, um að skera þorskaflann jafnmikið niður og raun ber vitni. Það dregur enn skýrar fram þá stöðu sem byggðirnar eru í, þá stöðu að sjávarbyggðir sem missa þessar grunntekjur eiga mjög undir högg að sækja.

Hitt er alveg ljóst að þær tekjur sem sveitarfélögum hafa verið ætlaðar á undanförnum árum hafa iðulega ekki dugað til þeirrar þjónustu sem þau þurfa að veita samkvæmt lögum og vilja veita íbúum sínum. Það byggist á því að í sveitarfélögunum, mörgum hverjum, hefur íbúum fækkað og í sumum landshlutum hefur íbúum verið að fækka um langt skeið. Má þar t.d. nefna Vestfirði, Norðvesturland, norðausturhornið, Vestmannaeyjar, suðausturhornið og fleiri svæði á landinu.

Tekjum í þjóðfélaginu er mjög misskipt. Þær tekjur sem hafnarsjóðum hafa verið ætlaðar á undanförnum árum hafa að stórum hluta byggst á því að þar væri landað afla, að tekjurnar kæmu eftir þeirri leið. Það hefur hins vegar verið margbent á aðra leið til þess að styðja við rekstur hafnanna. Bent hefur verið á, t.d. varðandi auðlindagjaldið, að auðveldlega væri hægt að láta það renna til hafnar- eða sveitarsjóða á viðkomandi stað.

Ein af þessum svokölluðu mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar var að lækka auðlindagjald, þ.e. fella það niður af þorskveiðiheimildum eingöngu. Þrátt fyrir að það hafi verið gert, upp á 275 millj. kr. á þessu fiskveiðiári, er veiðigjaldið samt hærra nú en það var á síðasta fiskveiðiári þó að tekjurnar minnki sennilega upp undir 25%, eða hrynji um 25 milljarða, milli fiskveiðiára.

Þetta er nú raunveruleikinn, hæstv. forseti, og þess vegna verða mjög margir hafnarsjóðir nú í miklum vandræðum. Það sem hefði kannski verið hægt að gera til þess að hjálpa upp á ástandið, sem hefur skapast vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, hefði m.a. verið að efla framkvæmdir í höfnum þar sem þarf að vinna að viðhaldi og endurbótum. En þá eru fjármunirnar ekkert endilega til. Þetta rekst hvert á annars horn og mótvægisaðgerðir, eins og menn kalla það, hitta ekki í mark.

Þegar hafnalögin voru á sínum tíma samþykkt á Alþingi var ljóst að stefna mundi í það að minni hafnirnar stæðust ekki samkeppni og fengju ekki nægar tekjur til þess að reka sig. Það hefur svo sem allt komið fram og menn hafa síðan verið að fresta ýmsum ákvæðum þessara laga til þess að reyna að gefa minni höfnunum ákveðinn aðlögunartíma varðandi verklegar framkvæmdir og annað slíkt.

Það mál sem við ræðum hér er bara einn þáttur af byggðamálunum í heild sinni, þeirri stefnu stjórnvalda að standa ekki með byggðunum þegar á reynir heldur standa fyrir aðgerðum sem veikja byggð í landinu. Þeir tekjustofnar sem beinlínis tengjast sjávarfangi, eins og auðlindagjaldið, og væri hægt að merkja til hafnanna — ekki hefur fengist vilyrði fyrir því, og hefur það þó oft verið nefnt í þessum þingsal að það væri m.a. leið til að styrkja hafnar- og sveitarsjóði.

Þetta vildi ég nú láta koma fram við þessa umræðu. Ég tel að í þingsályktunartillögunni sé verið að benda á rétt mál, að hafnirnar hafa ekki nægar tekjur, sveitarsjóðir hafa ekki nægar tekjur og ríkisstjórnin hefur staðið fyrir því enn á ný í stefnumótun sinni að veikja byggðina. Það vinnur gegn þeirri þróun að reyna að efla byggð í landinu. Það vinnur með þeirri þróun að veikja byggðina. Þetta er hinn kaldi veruleiki. Og við eigum að viðurkenna að ekki er í reynd verið að taka á þeim vanda sem víða snýr að landsbyggðinni hvað varðar atvinnuhætti og afkomu fólks í hinum dreifðu byggðum. Má þar nefna fjöldamargt, eins og dýra flutninga, erfitt vegakerfi o.s.frv.

Það er ágætt að vekja athygli á málinu með þessari tillögu um að auka fjárveitingar til hafnarsjóða. Vonandi bætir það eitthvað úr ef ríkisstjórnin tekur það upp. En það leysir engan veginn þann vanda sem við höfum verið að stefna í með aðgerðum ríkisstjórnarinnar.