135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

tekjutap hafnarsjóða.

39. mál
[14:47]
Hlusta

Flm. (Bjarni Harðarson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Það er ekki létt verk að koma í ræðustól á eftir fjallræðu þeirri sem hér var flutt. Síst vil ég undanskilja Framsóknarflokkinn í því að bera nokkra ábyrgð á sjávarútvegskerfinu, hann hefur komið þar mjög að og það er með það kerfi eins og önnur mannanna verk að það er ekki gallalaust. Þó vita þeir sem eru eldri en tvævetur að áður en það kerfi var innleitt var staða sjávarútvegsins langt í frá góð. Þá fjölluðu raunar flestir fréttatímar í landinu um erfiðleika í sjávarútvegi og erfiðleika í sjávarútvegsfyrirtækjum. Kvótakerfið hefur lagfært margt þar og fært margt til betri vegar en á því eru gallar.

Þó að ég vilji síst telja það galla sem hv. þm. Grétar Mar Jónsson vék hér að að skylda ætti útgerðarmenn til að færa allan fisk á markað, (GMJ: Sjómenn eiga hlut í aflanum.) að skylda ætti sjómenn og útgerðarmenn, svo ég hafi það rétt, að skylda ætti þá sem draga fiskinn til ákveðinnar sölumeðferðar þegar þeir koma með hann í land, þá tel ég að heldur skuli ríkja atvinnufrelsi og kjósi menn að slægja fisk sinn sjálfir og hengja hann upp til skreiðar eða verka í freðfisk sé þeim það heimilt. Ég hef aldrei skilið það, frú forseti, að það sé réttlætismál að skylda menn til að fara ákveðinn farveg og sé það raunar vel fyrir mér að það yrði mörgum sjávarplássum mjög erfitt vegna atvinnuöryggis í þeim ef þær myndarlegu útgerðir sem þar reka saman útgerð og fiskvinnslu hefðu ekki möguleika á því að tryggja sínum fiskvinnslum aðföng.

Að öðru leyti er tíminn hér fullstuttur til að gera öllum málum kvótakerfisins skil.