135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

tekjutap hafnarsjóða.

39. mál
[14:49]
Hlusta

Grétar Mar Jónsson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Það er auðvitað sorglegt að lenda í umræðu við fulltrúa frá Framsóknarflokknum sem heitir Bjarni Harðarson og veit ekkert hvað sjávarútvegur snýst um. Það er dálítið dapurlegt að engir aðrir sem þykjast þekkja meira og betur til sjávarútvegs en hv. þm. Bjarni Harðarson skuli treysta sér til að koma og reyna að ræða þessi mál.

Við í Frjálslynda flokknum höfum boðað breytingar á fiskveiðistjórnarkerfinu og við höfum komið með tillögur. Við höfum bent á færeyska dagakerfið sem fyrirmynd sem er ekki síðra og miklu betra. Það þekkist ekkert brottkast í Færeyjum þó að það sé kannski allt upp í 20% á Íslandi eða jafnvel meira. (BjH: Og er þar enginn byggðavandi?) Þar er sem betur fer ekki sami byggðavandi og á Íslandi, þar er ekki flótti í dag frá byggðunum eftir að þeir hættu með svokallað aflamarkskerfi á sínum tíma sem Danir neyddu upp á þá og þeir notuðu í eitt og hálft ár. Þeir hættu því, þeir sáu að þeir gengu illa um auðlindina, þeir voru að henda fiski í sjóinn og þeir voru að landa fram hjá eins og menn gera í íslenska kerfinu. Það veit enginn hvað verið er að drepa í hafinu í dag á Íslandsmiðum, það veit enginn hve miklu er verið að henda í sjóinn eða að landa fram hjá. Þetta eru bara staðreyndir sem allir vita og vakin hefur verið athygli á mörgum sinnum, m.a. í Kompásþætti rétt fyrir síðustu kosningar, og er auðvitað stór þörf á því að Alþingi geri eitthvað í þessum málum, tryggi það að menn geti sagt frá og upplýst um það hvernig þessi mál eru í alvörunni. Þetta er auðvitað mjög mikið mál og Alþingi þarf að taka á þessu með einhverjum hætti og ég hef komið með tillögur um það. En að segja að við höfum ekki komið með hugmyndir er náttúrlega bara vanþekking og algjört rugl í hv. þm. Bjarna Harðarsyni.