135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

Háskóli á Ísafirði.

30. mál
[15:43]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil undirstrika að það er mikið fagnaðarefni að þó að stofnanir eigi sínar höfuðstöðvar í Reykjavík séu þær að byggja upp starfsemi sína á Ísafirði. Ég fagna því og hvet til þess að það sé gert eins myndarlega og nokkur kostur er. Ég legg hins vegar áherslu á heildarsýnina, sem ég held að sé mikilvægt að hafa, til þess að sýna fram á hvar möguleikarnir liggja og hvar hlutverkið liggur. Við höfum, eins og hv. þingmaður minntist á, þessi hafsvæði, strandsvæði, úti fyrir Vestfjörðum, við höfum líka hina hrikalegu, stórbrotnu og margvíslegu náttúru sem Vestfirðir bjóða upp á. Við höfum tenginguna til Grænlands, til norðurslóðarinnar, það er mjög eðlilegt að horft sé til þess. Þar eru að opnast nýir heimar og breyttir frá því sem verið hafa með bráðnun íss þó að það hafi í sjálfu sér ekki áhrif á mikilvægi rannsókna og menntastarfs á þessum sviðum.

Þarna eru gríðarlega miklir möguleikar og það er mikilvægt að við notum og nýtum þann drifkraft, þær væntingar sem hafa verið byggðar upp í tengslum við uppbyggingu háskóla á Ísafirði, að við notum það núna, tökum ekki þá áhættu að fresta eða fara að vinna eitthvað betur, skoða og skoða. Þetta hefur verið skoðað býsna vel undanfarin ár. Það liggja fyrir dæmi, forsendur, Háskólinn á Akureyri, háskólinn á Hólum, háskólinn á Hvanneyri, háskólinn á Bifröst, það er eiginlega flestallt þekkt í þessu. En þetta byggist á frumkvæði, krafti, endalausum vilja og þreki heimamanna til að byggja þetta upp. (Forseti hringir.) Sá kraftur er til staðar og hann á að nýta.