135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

Háskóli á Ísafirði.

30. mál
[15:45]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek líka undir það sem kemur fram í máli hv. þingmanns, kannski er rétta tækifærið núna til að láta til skarar skríða í þeirri stöðu sem sjávarútvegurinn er eftir ákvörðun um niðurskurðinn í þorski um einn þriðja. Fyrirsjáanlegt er að þessi niðurskurður muni vara um eitthvert árabil í umtalsverðum mæli. Áhrifin eru mjög mikil á þessu svæði og trúlega nokkuð langvarandi og þá er kannski öflugasta mótvægisaðgerðin sem hægt er að grípa til um þessar mundir sú að stofna háskóla á Ísafirði. Það mundi gjörbreyta stöðunni þar, bæði í atvinnumálum, menntamálum og kannski viðhorfi Vestfirðinga þar sem töluverður uggur er um framtíðina.

Menn sjá ekki alveg fram á veginn hvert stefnir. Menn eru uggandi um að fram undan sé heldur samdráttur og áframhaldandi undanhald í þessum byggðum. Stofnun háskóla fyrir atbeina stjórnvalda yrði mjög skýrt merki um vilja þeirra til að snúa þróuninni við. Ég held að þau ættu að nýta þetta tækifæri. Það kæmi í réttu framhaldi af uppbyggingunni á háskólasetrum á undanförnum fjórum árum. Þá var farin sú leið að í stað þess að stofna háskóla, eins og við lögðum nokkrir til, var stofnað háskólasetur. Nú eru þeir sem aðhylltust það komnir á þá skoðun að rétt sé að stíga skrefið til fulls og nýta þá uppbyggingu sem hefur verið með setrinu til þess að stofna skóla á (Forseti hringir.) Ísafirði.