135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

Háskóli á Ísafirði.

30. mál
[15:47]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson rakti í framsöguræðu sinni hefur menntunin náttúrlega þróast og byggst upp. Við erum komin með framhaldsskóla mjög víða um land. Krafan er sú núna og hefur verið. Við fluttum einmitt þingmál, eitt fyrsta þingmál mitt hér á þingi, 1999–2000, um að það skyldi vera skylda að bjóða upp á nám í heimabyggð til 18 ára aldurs. Það þótti mjög fjarlægt þá, og hópi hér, meira að segja þáverandi menntamálaráðherra, fannst það fráleitt. Núna þykir sjálfsagt og brýnt að koma því á þannig að jafnrétti sé til náms hvað það varðar. Þetta er bara eðlileg þróun og nú erum við að þróast upp í háskólastarfsemi með háskóla víða um land.

Hv. þingmaður minntist á Selfoss. Ég flutti síðasta vetur tillögu um háskólasetur á Selfossi og reyndar líka á Akranesi. Ég tel að þetta eigi að koma. Þetta á að koma til þess að hluti af heimasamfélagi sé starfsemi á þessum vettvangi, rannsóknir, kennsla og þróunarstarf sem krefst háskóla- og akademískrar menntunar á vettvangi sem hluti af hverju samfélagi en ekki bara samfélag hér og rannsókna- og háskólasamfélag þar. Það tel ég einmitt ranga nálgun, vil heldur að þetta falli saman.

Liður í því væri háskóli á Ísafirði. Ég vona að við getum orðið sammála um það, við hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, að flytja líka tillögu við afgreiðslu fjárlaga um að sérstök fjárveiting verði veitt á fjárlögum til háskóla á Ísafirði. Það held ég að sé næsta og stærsta skrefið.