135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

Háskóli á Ísafirði.

30. mál
[15:54]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég fagna því að hér er komið fram frumvarp um háskóla á Ísafirði og ætla að fjalla um málið eins og það lítur við mér. Sjálfur hef ég talað mjög fyrir því að ein af grundvallarstoðum í byggðamálum í nútímalegri byggðastefnu sé menntun og tækifæri til náms sem næst heimabyggð.

Við höfum séð það á ýmsum úttektum og athugunum að þessu hefur verið mjög misskipt í landinu og menntun verið heldur síðri, þ.e. styttra nám hjá einstaklingum sem hafa búið á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Nú er það þannig á Vestfjörðum að þar er starfandi háskólasetur sem menn höfðu séð fyrir sér sem vísi að háskóla. Þetta háskólasetur hefur gegnt þar mikilvægu og vaxandi hlutverki. Eins og komið hefur fram fyrr í umræðunni hafa menn líka fært ýmis störf út á þetta svæði sem væri mjög æskilegt að tengja háskólastarfi á svæðinu eins og réttilega hefur komið fram.

Þetta háskólasetur hefur byggt á því að það hefur haft tengsl við aðra háskóla og hefur kennt áfanga frá öðrum háskólum en ekki notið sjálfstæðis til ákvarðanatöku. Það verður að segjast eins og er að ótti Vestfirðinga, eins og gjarnan vill verða með svona útibú eða háskólasetur, hefur verið sá að þegar að þrengir verði þessir angar skornir af. Í þessu samhengi er mjög eðlilegt að hér sé flutt tillaga um að háskóli rísi á Ísafirði.

Það er réttilega bent á í þessu frumvarpi til laga sem flutt er hér að þetta mál hefur verið borið fram af mjög mörgum aðilum, stofnunum og pólitískum samtökum. Meðal annars fjallaði Vestfjarðanefndin um þetta og mælti með háskóla á Vestfjörðum. Niðurstaðan varðandi framhald málsins varð sú, þrátt fyrir að réttilega megi benda á að það sé kannski kominn tími aðgerða en ekki umræðna, að skipuð var nefnd af menntamálaráðherra og ríkisstjórninni og henni falið að finna leið og koma fram óskum og hugmyndum um að sett yrði upp framtíðarsýn varðandi háskóla og rannsóknastarf á Vestfjörðum. Þessi nefnd hefur fengið mjög skamman tíma til að skila tillögum. Hv. þm. Guðfinna Bjarnadóttir leiðir þessa nefnd og hún á að skila núna um áramót.

Þar treysti ég á að menn skoði þá tillögu sem kemur fram hér í frumvarpinu ásamt öðrum sem hafa verið ræddar, m.a. af flutningsmanni, hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni, um hvort um yrði að ræða sjálfstæðan háskóla eins og hér er gert ráð fyrir eða háskóla undir einhverjum regnhlífarsamtökum landsbyggðarskóla eða með öðrum hætti. Mér finnst að menn eigi að ræða þetta mjög opið og hreinskilnislega.

Ég tek undir áhyggjur sem komu fram fyrr í umræðunni, réttara sagt undirstrika með þeim sem hér hafa talað áður, að það er mikilvægt að þarna verði um að ræða sjálfstæða stofnun sem hafi vald til að taka ákvarðanir, hafa frumkvæði, en verði ekki sett undir eitthvert miðstýrt vald af höfuðborgarsvæðinu. Ég bind miklar vonir við þessa nefnd. Ég veit að hún er þegar farin að starfa af fullum krafti og er m.a. að funda, ef ég veit rétt, í augnablikinu. Ég vona að hún skili sem allra fyrst og að menn geti þá farið að vinna að þeim tillögum sem þar koma fram ef um þær verður samkomulag.

Eins og ég sagði áðan hef ég verið talsmaður þess, og það er alveg réttilega vitnað í Samfylkinguna í því efni í Norðvesturkjördæmi, að háskóli eigi að rísa á Ísafirði. Það er liður í því að efla menntun á landsbyggðinni og tel ég það gríðarlega mikilvægt. Ég hef gjarnan orðað þetta þannig í umræðunni: Leyfum blómunum að gróa. Við eigum að fá fallegt landslag. Háskólar eru að spretta upp víða á landinu og eru að styrkjast. Ég held að það sé mjög gott. Það kann að vera, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson benti réttilega á, að síðar meir þurfi að setja þau undir einhver regnhlífarsamtök, einhverja sameiginlega stjórn til að fyrirbyggja að kostnaðurinn fari mjög úr böndum, til þess að stjórna háskólastarfinu í landinu.

Við sjáum það á höfuðborgarsvæðinu þar sem Kennaraháskóli Íslands er að renna sem sjálfstæð deild inn í Háskóla Íslands. Það kann að vera með einhverjum svipuðum hætti sem við þurfum að taka háskólanámið síðar meir en ég held að það sé mikilvægt að menn fari af stað sem sjálfstæðir skólar, vinni að eigin rannsóknum, taki mið af því umhverfi sem háskólinn sprettur upp úr, fái tækifæri til að móta sig og fái til þess fjármagn því að það skiptir mjög miklu máli. Það verður eitt af því sem við þingmenn Norðvesturkjördæmis, og raunar vonandi landsins alls, tökum okkur fyrir hendur, þ.e. að verja háskólana sem einmitt eru á þessu svæði, Bifröst, Hvanneyri og Hólaskóla. Það þarf að standa þétt við þá þannig að þeir fái að vaxa og dafna til jafns við aðra háskóla.

Ég fagna því að þetta frumvarp kemur fram. Ég hef að vísu orðað það stundum þannig að því miður erum við þingmenn oft að keppast við það að vekja athygli á okkur sjálfum. Þá víkur málið sjálft kannski fyrir því að það skiptir máli hver merkir sér það. Mér finnst þetta mál að því leyti bera merki um að ekki var leitað samráðs um að reyna að flytja málið þó að menn hafi vitað hug þingmanna almennt. Hv. þm. Jón Bjarnason benti á að hann hefði flutt tillögur um þetta. Hann veit af áhuga mínum, en menn hafa áhuga á að merkja sér þetta sem er út af fyrir sig bara hið besta mál. Það skiptir meira máli að við náum árangri í því sem við erum að gera og reynum þá að standa saman að því að koma málum í farveg sem skilar árangri. Það ætla ég að vona að okkur takist í framhaldinu.

Ég tek undir þau sjónarmið sem hafa komið fram um að það megi leggja í töluverðan kostnað til að stuðla að aukinni menntun á landsbyggðinni. Það væri örugglega ein öflugasta byggðastefnan, ég vil ekki kalla þetta lengur mótvægisaðgerðir, að stuðla að aukinni menntun, þ.e. tækifæri til menntunar sem næst því þar sem fólkið býr.

Ég vonast til að þetta frumvarp fái eðlilegan framgang í menntamálanefnd, að við fáum síðan tækifæri til að skoða það í framhaldi af vinnu þeirrar nefndar sem er að vinna að málefnum háskóla á Vestfjörðum og náum þá saman um einhverja þá leið sem getur stuðlað að aukinni háskólamenntun á Vestfjörðum sem og annars staðar á landsbyggðinni.