135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

Háskóli á Ísafirði.

30. mál
[16:06]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þarna stendur nefnilega hnífurinn í kúnni. Það þarf pólitíska ákvörðun um hvað á að gera. Meðan þessi nefnd hefur ekki pólitíska ákvörðun til að fara eftir fellur hún bara að mínu mati í safn fyrri nefnda sem eru að skoða málin og velta fyrir sér hvað sé hægt o.s.frv.

Ákvörðun um Háskólann á Akureyri var pólitísk, hún var tekin hér, það var pólitísk ákvörðun. Hún var hvorki embættismannaleg né nefndarleg og gott ef ekki var að þær nefndir sem voru að störfum hafi lagst gegn þessu eða dregið í efa að þetta væri skynsamlegt eða hægt. Sama var um endurreisn Hólaskóla, það var pólitísk ákvörðun, það var búið að taka embættislega ákvörðun um að leggja hann niður. Það var reyndar hluti af ríkisstjórnarákvörðun 1980 að hann skyldi endurreistur og það var pólitísk ákvörðun. Stofnun þessara háskóla og stofnun þessara skólasetra eru pólitískar ákvarðanir en ekki embættislegar. Auðvitað er gott að þær séu vel undirbyggðar embættislega. En nefnd núna — það er búið að fara vel í gegnum þá vinnu og það skortir pólitíska ákvörðun. Ég tel hættulegt að draga hana enn á langinn og ekki síst með svona hálfgerðum seim sem hv. þingmaður var með um sjálfstæði fyrst og að sjá svo til.

Eitt mikilvægasta atriðið er að fram komi pólitísk ákvörðun um stofnun háskóla á Ísafirði og síðan verði lagt allt kapp á að hann standi undir því nafni með samfélaginu og þeim möguleikum sem hann hefur. Ég er viss um að hann hefur þá mikla og það muni takast eins vel til þar og á Akureyri, Hólum, Hvanneyri og Bifröst þegar ákvörðun verður tekin og menn þjappa sér saman á bak við hana. En það þarf þá að taka þá ákvörðun.