135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

Háskóli á Ísafirði.

30. mál
[16:31]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér datt það í hug þegar hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var að tala hér áðan í þessu máli — ég get tekið undir þau sjónarmið sem hún setti fram um einmitt mikilvægi fjarskipta fyrir menntun víða um landið — og gat þess vegna ég ekki stillt mig um að koma í ræðustól og halda því til haga sem verið er að gera gott í þessum málum núna. Það er m.a. verið að fara í umfangsmestu uppbyggingu á fjarskiptakerfinu sem hefur verið gerð í mörg ár á Íslandi. Á vegum samgönguráðuneytisins er núna verið að bjóða út ákveðnar leiðir úti um land til að tryggja einmitt þetta fjarskiptasamband sem þingmaðurinn kom inn á.

Því má heldur ekki gleyma þegar verið er að ræða menntun á landsbyggðinni, háskóla á Ísafirði eða hvað annað sem skiptir auðvitað mjög miklu máli fyrir byggðir landsins, að kannski má orða það þannig að besta byggðastefnan sé einmitt uppbygging í samgöngum og fjarskiptum, að tryggja góðar samgöngur til og frá stöðum á landsbyggðinni og tryggja örugg fjarskipti og nettengingu sem víðast. Mér finnst að þessu verði að halda til haga í umræðunni vegna þess að við erum að fara í, vil ég leyfa mér að segja, umfangsmestu fjárfestingu í samskiptum og fjarskiptum sem um getur í Íslandssögunni alveg frá upphafi.