135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

kjarasamningar opinberra starfsmanna.

46. mál
[16:51]
Hlusta

Flm. (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sem er að finna á þskj. 46.

Frumvarp þetta hefur sex sinnum áður verið lagt fram og því jafnan verið vísað til efnahags- og viðskiptanefndar. Málið hefur ekki hlotið afgreiðslu úr nefnd en á 130. löggjafarþingi samþykkti nefndin að leita eftir lögfræðilegu áliti á efni frumvarpsins utan þings. En umfang málsins þótti það mikið að það reyndist of dýrt.

Hér á eftir verður því haldið fram og færð fyrir því rök að ákvæði 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986 kunni að brjóta gegn stjórnarskrá lýðveldisins Íslands á tvo ef ekki þrjá vegu. Það er í andstöðu við 74. gr. stjórnarskrárinnar sem segir að menn eigi rétt á að taka þátt í félögum en ekki sé hægt að skylda menn til þátttöku í félögum. Það er enn fremur í andstöðu við 40. gr. stjórnarskrárinnar sem segir að engan skatt megi á leggja nema með lögum. Það er og í andstöðu við 77. gr. sem segir að ekki megi fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Það kann líka að brjóta gegn ákvæði stjórnarskrárinnar um frelsi manna til að hafa skoðanir.

Sú grein sem lagt er til að felld verði brott, 2. mgr. 7. gr., hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

„Starfsmaður, sem lög þessi taka til og eigi er innan stéttarfélags samkvæmt lögum þessum, greiði til þess stéttarfélags, sem hann ætti að tilheyra, gjald jafnt því sem honum bæri að greiða væri hann í því, enda fari um laun hans og önnur starfskjör samkvæmt samningum þess samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra eða sveitarstjórnar. Þá ákvörðun skal tilkynna viðkomandi sveitarfélagi.“

Nú vill svo til að í Fréttablaðinu 25. október er frétt um það að Félag prófessora við ríkisháskóla hyggist fara í mál. Þar er viðtal við formann félagsins, Gísla Má Gíslason, sem segir, með leyfi herra forseta:

„„Menn eru nú skikkaðir til að greiða í stéttarfélög án þess að vilja vera í þeim þar sem stéttarfélag okkar, sem hefur verið til frá árinu 1989, fæst ekki viðurkennt. Ég kannast ekki við að stéttarfélag hafi ekki fengist viðurkennt síðan á fjórða áratug síðustu aldar og finnst vinnubrögð fjármálaráðuneytisins í sovéskum anda,“ segir Gísli. Hann bendir auk þess á að þau stéttarfélög sem hann segir prófessora nú í hafi ekki samið fyrir prófessora og að launakjör þeirra ráðist ekki af þeim samningum sem þar eru í gildi.“

Samkvæmt þessari frétt er í raun ekki félagafrelsi. Menn geta ekki stofnað stéttarfélög á Íslandi af því að fjármálaráðherra viðurkennir þau ekki. Þetta er náttúrlega dálítið merkileg staða þar sem í upphafi síðustu aldar reis verkalýðurinn upp til að berjast gegn ofurvaldi, stofnaði stéttarfélög og mátti það. En það virðist ekki lengur heimilt í dag.

Í þessu sambandi er kannski rétt að geta þess að sambærilegt gjald er iðnaðarmálagjald þar sem öll iðnfyrirtæki eru skyldug með lögum til að greiða til stéttarfélags iðnaðarins eða félagasamtaka þeirra, Samtaka iðnaðarins. Það mál hefur gengið til Mannréttindadómstóls Evrópu eftir dóm frá Hæstarétti sem féllst á að heimilt væri að leggja gjaldið á og Mannréttindadómstóllinn ákvað 15. október síðastliðinn að taka það mál upp. Það er mjög sjaldgæft á þeim bæ að þeir taki mál upp. Það er töluverður áfangi og kann hugsanlega að leiða til þess að menn fari að skoða alla skylduaðild manna að stéttarfélögum, ef Mannréttindadómstóll Evrópu skyldi nú komast að annarri niðurstöðu en Hæstiréttur Íslands.

Í lagagrein þeirri sem ég las áðan felst í raun dulbúin skylda til aðildar að stéttarfélagi. Það væri mjög óskynsamlegt fyrir starfsmann að njóta ekki allrar þjónustu stéttarfélags með því að gerast félagi, þótt honum sé það þvert um geð, þar sem hann er þegar búinn að greiða fyrir þjónustuna með félagsgjaldinu.

Ég mun líka færa rök fyrir því að ákvæðið gæti brotið gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar sem kveður á um að skattar skuli lagðir á með lögum og að ekki skuli fela stjórnvöldum, hvað þá einkaaðilum, ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.

Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. er ekki kveðið á um hámarksfjárhæð þess gjalds sem rennur til stéttarfélags. Félagsfundur í stéttarfélagi getur samþykkt hvaða félagsgjald sem er, án hámarks, og það er innheimt af stjórnvöldum með stuðningi þessara laga. Þeim ber að innheimta viðkomandi gjald sem rennur til aðila sem ekki er opinber aðili, þ.e. stéttarfélags. Sá sem á að greiða gjaldið samkvæmt þessum lögum þarf ekki að vera félagsmaður, kæri hann sig ekki um það, og hefur þar af leiðandi ekki neitt með ákvörðunina að gera. Einhver aðili, félagsfundur, ákveður félagsgjald og það er fræðilega ekkert hámark á því gjaldi þannig að félagsfundur gæti ákveðið að gjaldið yrði 100% af launum. Launaskrifstofa ríkisins yrði að innheimta gjaldið samkvæmt þessum lögum.

Menn hljóta að sjá af þessu að þetta gengur engan veginn upp, bara alls ekki, gagnvart stjórnarskrá, að einhverjum aðila úti í bæ, félagsfundi í stéttarfélagi skuli falin ákvörðun um hversu mikið gjald menn eigi að greiða, hve mikinn skatt menn eigi að greiða.

Á 126. löggjafarþingi var leitað umsagna frá ýmsum aðilum. Þær bárust nokkrar. Um þær umsagnir er það að segja að allar nema tvær eru frá aðilum sem njóta núverandi kerfis, skyldugreiðslu til stéttarfélaga. Stéttarfélögin voru náttúrlega öll neikvæð gagnvart þessu frumvarpi. Engin þessara umsagna tók afstöðu til þess hvort um skattlagningu væri að ræða eða ekki. Ég ætla ekki að fara nánar ofan í þennan kafla, þetta stendur allt í greinargerðinni sem er á fylgiskjalinu sem ég nefndi áðan.

Mig langar til, herra forseti, að ræða rétt aðeins um dóm Félagsdóms, nr. 4/1998, sem margoft hefur verið vísað í, sérstaklega í umsögnum. Samkvæmt 1. málslið 61. gr. stjórnarskrárinnar skulu dómendur í embættisverkum sínum einungis fara eftir lögunum. En við höfum því miður engan sérstakan stjórnlagadómstól á Íslandi eins og er víða, t.d. í Þýskalandi, þannig að Hæstiréttur hefur í einstökum málum farið í hlutverk stjórnlagadómstóls og dæmt hvort lög frá Alþingi, þar á meðal þessi lög hér, standist stjórnarskrá. Það sérkennilega er að Félagsdómur komst að þeirri niðurstöðu í máli nr. 4/1998 að greinin sem um ræðir samræmdist ákvæðum stjórnarskrárinnar um félagafrelsi. Það er mjög athyglisvert að Félagsdómur telji sig umkominn að dæma um hvort lög frá Alþingi standist stjórnarskrá. Ég fullyrði að dómurinn hafi ekki haft til þess heimild. Ef einhver mun ekki una þeim dómi, einhver opinber starfsmaður og mundi kæra það til almennra dómstóla sem heyra ekki undir Félagsdóm þá mundi það að sjálfsögðu geta lent í Hæstarétti. Hvað gerðist ef Hæstiréttur kæmist að þeirri niðurstöðu að þetta stæðist ekki stjórnarskrá? Eftir að Félagsdómur er búinn að fella þennan úrskurð kæmi upp mjög merkileg staða. Ég tel að Félagsdómur hafi ekki haft heimild til þess að kveða úr um málið og fara í hlutverk stjórnlagadómstóls.

Mikið hefur verið rætt um það að félagsgjald sé þjónustugjald. Menn séu að borga fyrir alls konar réttindi sem stéttarfélagið afli. Það má kannski segja það. En þá ætti líka þjónustugjaldið að vera krónutala því það getur varla verið meira mál að semja fyrir mann sem er með 400 þús. á mánuði í laun heldur en fyrir þann sem er með 200 þús. kr. á mánuði og mætti kannski halda því fram að það væri öfugt. Það væri erfiðara að semja fyrir þann sem er með lægri launin. Þannig að gjaldið ætti þá ekki að vera hlutfallslegt. En það er hlutfallslegt, er yfirleitt 1% eða 1,5% af launum af því að félagsfundir hafa ákveðið það þannig með skattlagningarvaldi sínu.

Þetta getur því varla verið þjónustugjald fyrir utan það að samkvæmt nýrri stefnu þá er búið að heimila forstöðumönnum ríkisstofnana að gera persónulegan samning við starfsmenn um launakjör og þá nýtur starfsmaðurinn ekki stéttarfélagsins lengur. Hann þarf að semja sjálfur nema í samningum um lágmarkslaun. Í því tilfelli eru samningar um laun atriði sem ekki getur verið innifalið í félagsgjaldinu.

77. gr. stjórnarskrárinnar hljóðar svo, með leyfi herra forseta:

„Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann. Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.“

Hér er sérstaklega kveðið á um réttarvernd borgaranna gagnvart álagningu skatta sem stjórnarskráin tryggir. Ekki má framselja vald til ákvörðunar skatta til stjórnvalda og álagning skatta skal vera samkvæmt lögum. Hvorugt er til staðar varðandi það gjald sem fjallað er um í þessu frumvarpi. Upphæð þess er ákveðin á félagsfundi og álagningin er ekki samkvæmt lögum. Það er ekkert sem segir í lögum um það hvað þetta gjald eigi að vera hátt. Hvort það eigi að vera 1%, 10%, 50% eða 100% af launum. Eða hvort það eigi að vera föst tala, 50 þús. kr. á mánuði. Það er ekkert í lögunum sem segir til um það og félagsfundur hefur algerlega frjálsar hendur um að ákveða hvað gjaldið eigi að vera.

Í greinargerð með frumvarpinu eru talin upp nokkur svipuð dæmi og þar er m.a. nefnt dæmi um búnaðargjaldið en ég er einmitt með frumvarp sem var rætt og vísað til landbúnaðarnefndar fyrir stuttu, í síðustu viku, þar sem lagt er til að búnaðargjald verði fellt niður eða að skylda bændur til að greiða til stéttarfélags. Svo er nefnt dæmi um sóknargjald samkvæmt lögum nr. 91/1987 sem er nefskattur og hækkar eins og laun og rennur til trúfélags viðkomandi en ella til Háskóla Íslands ef viðkomandi er ekki í neinu trúfélagi. Það verður ekki séð að sá trúlausi fái neina sérstaka þjónustu hjá háskólanum umfram aðra menn þannig að það er heldur ekki þjónustugjald.

Enn fremur nefndi ég stefgjald sem er m.a. tekið sem prósenta af tölvum og segulbandstækjum og þessi vörugjöld renna til samtaka höfundarréttafélaga sem aðallega eru listamenn en það rennur ekki til aðalhöfundanna sem eiga hagsmuna að gæta í tölvum sem eru hugbúnaðarsmiðir. Þeir fá ekkert af þessu gjaldi og það er mjög sérkennilegt.

Svo er það iðnaðarmálagjaldið sem ég nefndi rétt áðan að það er líka eitt dæmi um svona skatt og ég hef flutt um það frumvarp og það er komið núna til hv. efnahags- og skattanefndar til umfjöllunar og er auk þess til umfjöllunar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu sem hefur samþykkt að taka það upp eins og ég gat um áðan.

Svo er líka spurningin um iðgjald til lífeyrissjóðs samkvæmt lögum nr. 129/1997 sem er heldur ekki þjónustugjald vegna þess að karlmaður sem er einhleypur og ekki eins langlífur og konan að meðaltali, hann þarf að borga sama gjald og kona sem er langlífari, hugsanlega gift. (Gripið fram í: Nú lifa karlarnir lengur en konur.) Nei, það er nú ekki reyndin, ekki með nýfædda drengi, þeir lifa skemur.

Að minnsta kosti borga þeir sem eru með maka sama iðgjald og þeir sem eiga mörg börn sem geta notið barnalífeyris þannig að þetta er ekki þjónustugjald. Svo mátti líka líta á útvarpsgjaldið sem undarlegan skatt en núna er búið að breyta því yfir í nefskatt eins og kunnugt er.

Í greinargerðinni er enn fremur fjallað um félagafrelsi en ég ætla nú ekki að fara nánar ofan í það en árið 1992 skrifaði Elín Blöndal kandídatsritgerð til embættisprófs sem fjallaði um neikvætt félagafrelsi og er farið í gegnum þá vinnu í greinargerðinni.

En það sem ég ætla að geta um í lokin er skoðanafrelsi. Það er sem sagt frelsi manna til að hafa skoðanir. Nú er ekkert sem bannar stéttarfélagi að hafa skoðun á hinum og þessum hlutum og þau hafa oft og tíðum skoðanir á þessu og hinu. Það væri svo sem í lagi ef þeir sem greiddu til þeirra hefðu frelsi til þess að hætta að greiða í félagið ef þeim líka ekki skoðanirnar.

En í þessu tilfelli verða menn að greiða til viðkomandi stéttarfélags og ég vil minna á að BSRB hefur sett á oddinn og boðið hingað til lands sérfræðingum á sviði réttinda manna til að njóta vatns, haft mikinn áhuga á því að fólk hafi hreint vatn til að drekka o.s.frv. sem er í sjálfu sér ágætt mál. En það er ekki endilega víst að allir félagsmenn í BSRB séu sama sinnis. Þeir eru þá neyddir til þess að greiða fyrir skoðun sem þeir eru andvígir. Þeir verða að greiða fyrir hana.

Gott dæmi um slíkt er t.d. að þegar prófessorarnir vilja stofna stéttarfélag þá er þeim í rauninni bannað það. Eins væri með þá sem væru á öndverðu máli og teldu t.d. að núverandi stéttarfélög opinberra starfsmanna hafi ekki staðið sig nógu vel í því að berjast fyrir kjörum sínum og mundu vilja stofna nýtt herskárra stéttarfélag. Þá mættu þeir það ekki eða þeir yrðu þá að borga jafnframt til gamla stéttarfélagsins líka, sem hugsanlega berðist gegn stofnun nýja félagsins því það væri í samkeppni við það. Ég held því, herra forseti, að þetta fyrirkomulag gangi engan veginn upp.

Ég ætla ekki að ræða þetta frekar. Þetta stendur allt í greinargerð með frumvarpinu. Ég legg til að lokinni umræðu verði því vísað til hv. efnahags- og skattanefndar.