135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

kjarasamningar opinberra starfsmanna.

46. mál
[17:08]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal sýnir mikla staðfestu í þessu máli, lofsverða staðfestu verð ég að segja. Ég velti því hins vegar fyrir mér hvort á bak við þessa staðfestu kunni að liggja forræðishyggja. Ég velti því fyrir mér. Aðilar vinnumarkaðarins, félagsmenn þeirra, hafa komið sér niður á ákveðið skipulag um vinnuréttargjöld, um félagsgjöld, um forgangsrétt og hafa samið um það og eins gildir á sviði opinberra starfsmanna nema þarna er löggjöf afsprengi samninga og samkomulags aðila á vinnumarkaði. Er einhver vísir að forræðishyggju þess að hv. þm. Pétur Blöndal vilji að Alþingi gefi fyrirmæli ofan frá um að stéttarfélög velji sér aðrar leikreglur en eru í gildi? Ég velti því fyrir mér. Getur verið að svo sé?

Það er nú einu sinni svo, hv. þm. Pétur Blöndal, að þetta kerfi sem við höfum á vinnumarkaði, hvað sem menn vilja segja um það, hefur verið býsna friðsamlegt síðustu tæpa tvo áratugina. Skipulagið hefur gert það að verkum að menn hafa gengið til kjarasamninga og fleira með skipulegum hætti í friði, verkföllum hefur fækkað verulega og þar fram eftir götunum.

Ég velti því líka fyrir mér fyrir utan hugsanlegt forræðishyggjuívaf hv. þm. Péturs Blöndals, hvort þetta frumvarp samþykkt óbreytt kunni að vera kveikja að ófriðarbáli á vinnumarkaði, í óskipulögðum vinnumarkaði. Ég velti þeirri hugsun fyrir mér af fullri alvöru að í landinu séu 500 stéttarfélög sem þurfi að semja við í hverjum einasta kjarasamningi. Ég ítreka það aftur að þetta skipulag byggir á frjálsum samningum og félagsgjaldið eða vinnuréttargjaldið á samningsfrelsi, sem er líka stjórnarskrárbundið.

Þetta eru nú svona hugleiðingar sem koma í huga minn ásamt mörgum fleirum og það er alltaf merkilegt þegar þingmaður, eins og hv. þm. Pétur Blöndal stendur upp og veltir fyrir sér mannréttindum. Það er fagnaðarefni.

Hv. þingmaður hefur haft þá staðfestu að leggja þetta frumvarp fram í febrúar 2001. Einhverjar umræður urðu þá. Aftur í febrúar 2002. Þá sagði enginn neitt. Í nóvember 2002 var rætt um það og þar tóku helst til máls hv. þm. Pétur Blöndal og hv. þm. Ögmundur Jónasson sem fjölluðu ítarlega um málið og skiptust á skoðunum og fóru í svör og andsvör.

Enn á ný kemur frumvarpið fram 2003 en þá vildi enginn hv. þingmaður ræða það þannig að um eintal var að ræða hjá hv. þingmanni í framsögu. 2004 urðu hins vegar ansi fjörugar umræður og þar voru sömu hv. þingmenn í aðalhlutverkum og ég hef hér nefnt. Enn kom frumvarpið fram haustið 2005 og þá var eingöngu flutt framsöguræða.

Það veldur mér vissum vonbrigðum með staðfestu þingmannsins að frumvarpið skyldi ekki koma fram 2006–2007. Hv. þingmaður skýrir það ef til vill fyrir þingheimi hvað veldur staðfestuleysi hans það árið. Getur verið, hv. þingmaður, að eitthvert samsæri hafi verið þar á bak við, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi bannað hv. þingmanni að leggja það fram til að ekki yrði atkvæðaflótti frá flokknum? Þetta er auðvitað samsæriskenning. Ég viðurkenni það sjálfur. En hún er alveg spurningarinnar virði þessi kenning. Hún er alveg spurningarinnar virði hvort flokkurinn hafi sett hv. þingmanni stólinn fyrir dyrnar. Ég trúi því ekki en það væri gott að fá svör við því.

Í ljósi þessarar staðfestu hv. þingmanns og í ljósi þeirrar miklu umræðu sem farið hefur fram þá þarf ég ekki að lengja mál mitt hér mikið heldur vísa í umræðuna og vísa sérstaklega í ræður hv. þm. Ögmundar Jónassonar sem leggst gegn þessu og það er stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Ég tek undir rök hans heils hugar.

Aðeins svo um 2. mgr. 7. gr. laga nr. 94/1986. Því fer fjarri að mínu mati að þetta ákvæði kveði á um skylduaðild að stéttarfélögum. Það er óheimilt. Hins vegar er talið að samningar um forgangsrétt og samningar um félagsgjöld til stéttarfélaga og vinnuréttargjöld standist stjórnarskrána. Það er svo.

Þessi gjaldtaka á sér ákveðinn bakgrunn. Stéttarfélög gegna opinberum skyldum, svo sem að ganga til kjarasamninga og gera þá. Það svið er umvafið löggjöf um stéttarfélög opinberra starfsmanna og almennri löggjöf um stéttarfélög og vinnudeilur frá fjórða áratug síðustu aldar en var endurskoðuð á síðasta áratug hennar. Um er að ræða vinnuréttargjald sem stenst stjórnarskrána að mínu mati.

Hv. þm. Pétur Blöndal sagði að með þessu ákvæði væri komið í veg fyrir stofnun stéttarfélaga opinberra starfsmanna og nefndi í því sambandi prófessora en því er ég ósammála. Þetta ákvæði girðir ekki fyrir að Félag prófessora geti krafist kjarasamninga við hæstv. fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins, valdið til að tryggja það liggur hjá þeim flokki. Stofnuð hafa verið sjálfstæð stéttarfélög og félagsmenn úr einu stéttarfélagi hafa flutt sig til annars. Dómar Félagsdóms þar að lútandi liggja fyrir svo ég hef ekki áhyggjur af Félagi prófessora. Sem lögmaður félagsins hef ég reyndar stutt þá í kröfugerð þeirra þannig að mér er málið nokkuð kunnugt.

Hv. þm. Pétur Blöndal talaði um samráð, samráðspólitík og forræðishyggju. Nú stendur yfir endurskoðun á kjarasamningum og lagaumhverfi opinberra starfsmanna. Ekki er klókt að grípa inn í samráðs- og samstarfsferil frjálsra félagasamtaka og ríkisins því að frelsið er líka hjá stéttarfélögum. Í stjórnarskránni er stéttarfélögum meira að segja gert sérstaklega hátt undir höfði. Þau eru talin meðal mikilsverðustu félaga í lýðræðisþjóðfélagi ásamt stjórnmálaflokkum.

Andstaðan gegn frumvarpinu er ekki bundin við Vinstri hreyfinguna – grænt framboð. Læknafélag Íslands, Alþýðusambandið, BSRB, fjármálaráðuneytið og Bandalag háskólamanna hafa mælt gegn því. Miðað við afstöðu hæstv. fjármálaráðherra er það innanflokksvandamál í Sjálfstæðisflokknum að hv. þm. Pétur Blöndal rekst ekki í húsi Sjálfstæðisflokksins með skoðanir sínar. (Gripið fram í.) Það sagði ég ekki, ég held að hv. þm. Pétri Blöndal líði bara ágætlega. (Gripið fram í.)

Hv. þm. virðist heldur ekki rekast í ríkisstjórnarsamstarfinu hvað þetta mál varðar því að samstarfsflokkur Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn hefur lagst eindregið gegn lagabreytingatilþrifum hans. Fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, tók dyggilega undir sjónarmið Ögmundar Jónassonar í ræðu sinni á 131. löggjafarþingi þegar frumvarp hv. þm. Péturs Blöndals var til umræðu eina ferðina enn.

Ég ítreka að ekki skal rugga bátnum þegar skipulag verkalýðshreyfingarinnar og atvinnurekenda eiga í hlut. Ég fagna umhyggju hv. þingmanns fyrir stjórnarskránni en forgangsröðun þjóðþrifamála mætti ná lengra. Landsbyggðin brennur og ég get nefnt margt fleira. (Gripið fram í.) Stjórnarskráin hefur komið til umræðu bæði á sumarþingi og á þessu þingi. Þar nefni ég bráðabirgðalög sem greidd voru atkvæði með í dag. Ég hefði viljað sjá hv. þm. Pétur Blöndal standa í sína stjórnarskrárfætur og greiða atkvæði gegn þeim. Ég hefði líka viljað heyra hann mæla gegn stjórnarskrárbrotum sem tíð eru í þjóðfélaginu og bitna á helmingi þjóðarinnar, þ.e. konum. Þar á ég við kynbundinn launamun sem er brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og kynbundið ofbeldi sem er brýnt brot á ákvæði stjórnarskrárinnar um friðhelgi einkalífs. Það er líklega stærsta heilbrigðisvandamál kvenna á Íslandi.

Ég hefði líka kosið að sjá hv. þingmann ganga til liðs við mig og fleiri landsbyggðarþingmenn og krefjast þess að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar væri virt gagnvart fólki sem býr á landsbyggðinni, að það geti kosið sér búsetu úti á landi án þess að vera mismunað hvað varðar menntun, samgöngur, atvinnu og margt fleira.