135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

kjarasamningar opinberra starfsmanna.

46. mál
[17:36]
Hlusta

Auður Lilja Erlingsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Kvartað hefur verið undan ónógum umræðum þannig að maður verður að leggja sitt fram. Ég vil lýsa mig andsnúna frumvarpinu. Ég tel að það muni grafa undan starfsemi stéttarfélaga og verkalýðshreyfinga í landinu og þar með grafa undan einni af meginstoðum lýðræðisþjóðfélags nútímans.

Það hefur færst í vöxt að einstaklingar semji beint við atvinnurekendur sína um kaup og kjör. Ég er ekki alveg viss hvað mér finnst um þá þróun, að minnsta kosti virðist hún koma verr út fyrir konur en karlmenn. Það er nokkuð sem ég óttast. Hins vegar er ekki jafnmikill uggur í brjósti mér og væri ef kjarasamninga nyti ekki við þar sem lágmarksréttindi eru tilgreind. Þeirra lágmarksréttinda njóta allir opinberir starfsmenn enda greiða þeir allir fyrir þau réttindi sín og við ræðum það hér hvort það gjald sé dulbúin félagsskylda.

Svo virðist sem hv. flutningsmenn telji að slíkar greiðslur séu í andstöðu við stjórnarskrána og um sé að ræða dulbúna félagsskyldu. Það tel ég hins vegar ekki og er, líkt og komið hefur fram, ekki ein um þá skoðun. Nægir að vitna í niðurstöðu Félagsdóms, sem ekki allir eru sammála.

Hægt er að rökstyðja ýmislegt í nafni frelsisins. Ég tel þó öfugsnúið frelsi að búa til aðstæður þar sem erfitt er fyrir verkalýðsfélög og stéttarfélög að dafna. Að sjálfsögðu er erfitt fyrir stéttarfélög að dafna ef fólk getur kosið að greiða ekki til þeirra en engu að síður notið réttinda um lágmarkskjör. Það segir sig sjálft að fólk kýs að greiða ekki fyrir það.

Öfugsnúið frelsi, segi ég, því að ég tel að frelsi hafi margar birtingarmyndir. Ein þeirra birtingarmynda sem mér finnst hvað sterkust er það frelsi sem verkalýðshreyfingin hefur fært okkur með áratugabaráttu sinni, frelsi til að lifa með reisn og frelsi til að fá mannsæmandi kjör fyrir vinnu okkar.