135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

almannatryggingar.

35. mál
[17:39]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um almannatryggingar, sem eru nr. 100 frá 2007. Flutningsmenn eru auk mín hv. þingmenn Guðjón A. Kristjánsson, Grétar Mar Jónsson og Jón Magnússon.

Í frumvarpinu er lagt til að gera breytingar á 42. gr. almannatryggingalaga, sem fjallar um sjúkratryggingar og tannlækningar viðvíkjandi þeim, og lagt til að gera breytingar á þann veg að auka tryggingaverndina frá því sem kveðið er á um í gildandi lögum. Í 42. gr. gildandi laga er tekið fram í fyrsta lagi að tannréttingar séu undanskildar sjúkratryggingum og í öðru lagi að sjúkratryggingar taki eingöngu þátt í greiðslum vegna tannlæknaþjónustu aldraðra, öryrkja, barna og unglinga yngri en 18 ára.

Við flutningsmenn leggjum til að þessu verði breytt, annars vegar að tannréttingar verði teknar inn í sjúkratrygginguna og viðeigandi breyting á 1. mgr. 42. gr. gerð til þess að það náist fram, hins vegar að tryggingaverndin hjá sjúkratryggingunum verði aukin hvað varðar tannlæknaþjónustuna þannig að hún nái til stærri hóps en er í gildandi lögum. Við leggjum til í frumvarpinu að stigið verði skref í þá átt að tannlæknaþjónustan verði að öllu leyti undir tryggingaverndinni. Við leggjum einnig til að það verði gert í áföngum og að tryggingaverndin nái strax við gildistöku frumvarpsins, sem við áætlum að verði 1. janúar 2008, til allra þeirra sem eru yngri en 25 ára en ekki bara þeirra sem eru yngri en 18 ára auk þeirra sem njóta tryggingaverndarinnar og taldir eru upp, þ.e. aldraðra og öryrkja. Við leggjum til að tryggingaverndin verði hækkuð fyrir þá sem eru 25 ára og yngri í stað 18 ára. Auk þess leggjum við til að aldursmörkin hækki um þrjú ár um hver áramót þar til að allir sem eru orðnir fertugir og yngri eru komnir undir tryggingavernd.

Þetta er innihald frumvarpsins, virðulegi forseti, og ef það nær fram að ganga verður veruleg breyting á tryggingavernd varðandi tannréttingar og tannlæknaþjónustu frá því sem nú er þó svo að skrefið sé ekki stigið til fullnustu í þessu frumvarpi. Okkur þótti rétt að gera þetta í áföngum og stíga þetta skref með frumvarpinu núna. Frumvarpinu fylgir greinargerð sem ég vil leyfa mér að lesa, með leyfi forseta:

„Með frumvarpi þessu eru lagðar til verulegar breytingar á greiðsluþátttöku ríkissjóðs í tannlæknakostnaði landsmanna. Gert er ráð fyrir að tannréttingar verði felldar inn í tannlæknaþjónustuna og greiddar með sama hætti og sjúkratryggingin og látin ná til fleiri en nú er. Aldursmörkin verði hækkuð strax úr 18 árum í 25 ár við næstu áramót og síðan árlega um þrjú ár þar til allir 40 ára og yngri, auk aldraðra og öryrkja, falla undir sjúkratrygginguna 1. janúar 2013. Ekki er lagt til að stíga skrefið til fulls að svo stöddu, en af hálfu flutningsmanna er markmiðið að kostnaður sjúklings við tannlækningar, án tillits til aldurs, verði meðhöndlaður eins og annar lækniskostnaður og falli að lokum inn í sjúkratrygginguna.

Gert er ráð fyrir að greiðsluþátttaka sjúklings verði föst fjárhæð, sambærileg við kostnað við aðra læknisþjónustu utan sjúkrahúsa og ákveðin í gjaldskrá sem ráðherra setur en horfið frá því fyrirkomulagi sem verið hefur að endurgreiðsla ríkisins miðist við gjaldskrá sem ráðherra setur án tillits til þess gjalds sem tannlæknar innheimta fyrir þjónustu sína.

Rétt þykir að minna á frétt í Ríkisútvarpinu frá 14. mars 2007 með fyrirsögninni Tannverndarstefna stjórnvalda í molum. Þar er haft eftir Sigurjóni Benediktssyni, formanni Tannlæknafélags Íslands, að stjórnvöld hafi brugðist í tannverndarmálum barna. Segir hann að tannheilsa barna fari eftir því hvort foreldrar þeirra hafi efni á því að senda þau til tannlæknis. Sem dæmi þá kosti tannskoðun þriggja ára barns hjá barnatannlækni um 11.000 kr. en aðeins um 3.000 kr. fáist endurgreiddar og því greiði foreldrar um 8.000 kr. úr eigin vasa. Þann kostnað sé svo ekki hægt að telja með við umsókn um afsláttarkort vegna lækniskostnaðar. Annars staðar á Norðurlöndum greiði stjórnvöld yfirleitt allan kostnað af tannvernd barna. Sigurjón segir að nýlegar rannsóknir heilbrigðisráðuneytisins bendi til þess að stefna íslenskra stjórnvalda hafi reynst illa. Nýlegar tölur benda til þess að fimmtungur barna og unglinga á aldrinum 4–18 ára fari ekki til tannlæknis.

Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um kostnað við tannlækningar, en lauslegt mat gerir ráð fyrir að heildarkostnaður, að tannréttingum meðtöldum, geti verið allt að 7–8 milljarðar kr. Hlutur ríkisins er um 1.300 millj. kr. eða tæplega 20% af heildarkostnaði. Ætla má, verði frumvarpið að lögum, að kostnaður nemi í fyrstunni um 1 milljarði kr. árlega, en að fullu komið til framkvæmda nái það til ríflega helmings kostnaðar þeirra sem í dag eru ekki sjúkratryggðir eða 3–4 milljarðar kr.“

Þannig er greinargerðin með þessu frumvarpi. Ljóst er að kostnaður er umtalsverður. Það er ástæðan fyrir því að við tökum þetta í tveimur áföngum. Í þessu frumvarpi er fyrri áfanginn, þar leggjum við til þá breytingu að um það bil helmingurinn af þeim kostnaði sem í dag fellur utan tryggingaverndar falli á ríkissjóð. Gert er ráð fyrir öðru frumvarpi síðar þar sem skrefið verður stigið til fulls.

Ég vil vekja athygli á því í lokin, virðulegi forseti, að það er dálítið sérstakt að hér á landi hafi mál skipast svo að tannréttingar og tannlækningar skuli að verulegu leyti vera undanþegnar tryggingavernd sjúkratrygginga. Þetta eru einu bein líkamans, og eini staður líkamans, sem ekki eru sjúkratryggð. Eigi einstaklingur við sjúkdóm að stríða eða verður fyrir meiðslum er hann tryggður fyrir því. Heilbrigðiskerfið tekur við honum og veitir honum sína þjónustu og ríkið borgar kostnaðinn að mestu leyti. Meðaltalstölur eru þannig að ríkið greiðir um 85% af kostnaði en sjúklingurinn 15%. Það er meðaltalskostnaður í heild en það getur verið breytilegt eftir sjúkdómum.

Þegar munnholið á í hlut eða tannbeinin er tryggingaverndin miklu rýrari. Ríkið greiðir kannski um 20% af kostnaðinum en einstaklingurinn 80%. Í þessu er ekkert samræmi, virðulegi forseti, og því finnst okkur eðlilegt að breyta almannatryggingalögunum þannig að munnhol og tannbein verði sjúkratryggð með nákvæmlega sama hætti og aðrir líkamspartar. Því er líka gert ráð fyrir, eins og kemur fram í greinargerðinni, að kostnaðarþátttaka ríkissjóðs breytist samhliða því að frumvarpið nær fram að ganga svo að það verði ekki þannig að ríkið greiði sinn hlut miðað við auglýsta gjaldskrá, sem það býr við, en ekki raunverulegan kostnað sjúklinga af því að fara til tannlæknis.

Virðulegi forseti. Ég legg til að málið gangi til heilbrigðisnefndar og 2. umr. að þessari umræðu lokinni.