135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

heilsársvegur yfir Kjöl.

21. mál
[18:01]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Mig langar að ræða lítillega það mál sem hv. þm. Kjartan Ólafsson mælti fyrir, tillögu til þingsályktunar um heilsársveg yfir Kjöl, ásamt 15 öðrum meðflutningsmönnum, hv. þingmönnum. Ég vil jafnframt nota tækifærið til að lýsa þeirri skoðun minni að ég er hjartanlega ósammála hv. þingmönnum sem flytja þetta mál. Hvers vegna er ég það og hvers vegna segi ég það? Vegna þess að ég horfi á þetta mál fyrst og fremst út frá sjónarmiðum og hagsmunum náttúrunnar, ég tel að hvort sem um er að ræða veg yfir Kjöl eða vegalagningu eins og þingmaðurinn talaði um áðan, uppbyggðan malbikaðan heilsársveg, hafi slíkir hálendisvegir neikvæð áhrif á náttúruna og að í þessum efnum eigi náttúran að njóta vafans.

Ég vil einnig geta þess að Landvernd skoðaði þetta mál á sínum tíma og leggst eindregið gegn þessari uppbyggingu einmitt út frá hagsmunum náttúrunnar. Ég get ekki alveg verið sammála því sem hv. þingmaður sagði að það jákvæðasta við málið sé endilega stytting tíma og þessa vegarspotta milli höfuðborgarsvæðisins og Norðurlands. Ég held að miklu nær sé að horfa á þetta í víðara samhengi og einbeita sér frekar að því að laga þann veg sem ekið er eftir í dag frekar en að æða inn á hálendið með vegalagningu með þessum hætti.

Ég bendi á að eins og staðan er í dag vantar raunverulega að móta heildstæða stefnu um landnotkun á hálendinu og meðan ekki er búið að því finnst mér ekki rétt að samþykkja þetta mál eða setja það í þennan farveg. Ég bendi jafnframt á að á vegum umhverfisráðuneytisins er verið að vinna undirbúningsvinnu að einhvers konar landskipulagi og að ég held að menn ættu að bíða eftir því áður en farið er af stað með þetta mál eins og það er kynnt hérna.

Mig langar líka að nefna það, herra forseti, í þessu samhengi að í Fréttablaðinu 19. júní á þessu ári þegar nýir ráðherrar höfðu tekið við embættum sínum er haft eftir bæði hæstv. samgönguráðherra og hæstv. umhverfisráðherra að hvorugt þeirra telji rétt að leggja sérstakan heilsársveg yfir Kjöl. Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna þeirri yfirlýsingu beggja ráðherranna sérstaklega. Eftirfarandi kemur fram í þessari frétt Fréttablaðsins frá 19. júní, með leyfi forseta:

„Kristján [þ.e. Kristján Möller samgönguráðherra] sagði í pistli í Morgunblaðinu nýlega að ekki stæði til að ráðast í gerð upphækkaðs heilsársvegs yfir Kjöl. Kristján bendir á að í umhverfisskýrslu með tillögu að tólf ára samgönguáætlun sem samþykkt var 2007 er engin samræmd stefna um landnotkun á hálendinu og þar með ekki vitað hvernig vegagerð þar verður háttað.“

Ég held að þetta sé einmitt aðalatriði málsins, að menn eigi fyrst að vinna slíka undirbúningsvinnu og marka stefnu hér á þinginu um það hvernig menn vilja sjá landnotkunina þarna fyrir sér. Síðan geta menn farið að ræða þennan sérstaka vegarspotta yfir Kjöl. Mér finnst ekki tímabært að samþykkja málið að þessu sinni og fyrir utan það er ég í prinsippinu á móti því að malbika hálendið eða leggja sérstaka heilsársvegi yfir það, við ættum frekar að einbeita okkur að því að bæta það vegasamband sem er í dag, þjóðveg 1, og allt það sem því fylgir.