135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

heilsársvegur yfir Kjöl.

21. mál
[18:06]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þessa tillögu til þingsályktunar, um heilsársveg yfir Kjöl, sem hv. þm. Kjartan Ólafsson hefur mælt fyrir. Þó vil ég aðeins koma inn á nokkur atriði.

Ég tek undir orð hv. þm. Steinunnar Valdísar Óskarsdóttur, bæði hvað varðar umhverfisþáttinn og eins forgangsröðun í samgöngumálum. Ég vil árétta það að svo mörg og brýn óleyst verkefni eru í samgöngumálum í byggð, bæði innan héraða og milli héraða, að þetta mál sem hv. þm. Kjartan Ólafsson mælir fyrir getur ekki talist forgangsmál í mínum huga. Það getur verið hættulegt að vekja væntingar og veita svona málum brautargengi því að með því dreifist athyglin og með því dreifast stefnumarkmiðin og eftirfylgnin við þau verkefni sem raunverulega þarf að vinna að. Ég hefði viljað sjá hv. þingmann flytja tillögu um stóraukið framlag til vegagerðar í sveitum landsins, í byggðum utan aðalstofnbrauta því að ég veit að einmitt í kjördæmi þingmannsins eru langir vegarkaflar, malarvegarkaflar, illa uppbyggðir og eldgamlir, nærri því frá hestakerrutímanum, sem eiga að þjóna nútímakröfum í samgöngum.

Ég veit að þetta á líka við í öðrum landshlutum, framlög til innanhéraðsvega hafa verið í svo fullkomnu lágmarki á undanförnum árum að til mikils vansa hefur verið. Kannski er eitt brýnasta málið í samgöngumálum þjóðarinnar að gera átak hvað þessa vegi varðar og ég sakna þess í þeirri áherslu sem nú er lögð á að reyna að flýta vegaframkvæmdum til að vinna upp nokkuð af því sem vanrækt var á undanförnum árum, að sjá ekki stóraukið framlag til innanhéraðsvega. Ég hefði talið að það stæði þingmönnum enn þá nær að berjast fyrir því heldur en koma með tillögu um veg yfir Kjöl. Ég hygg að þeir sem beðið hafa í ár og áratugi eftir framkvæmdum í vegum á Vestfjörðum og hafa setið uppi með ráðherra einmitt úr sama flokki og hv. þingmaður, Sjálfstæðisflokknum, í 20 ár, horft upp á hver svikin á fætur öðrum eða vanefndir á loforðum og yfirlýsingum varðandi vegaframkvæmdir, ég held að þeir hefðu frekar viljað sjá þingmanninn leggjast á sveif með þeim sem vilja nú horfa á stórátak í þeim efnum og að staðið verði við það. Nei, þá velur þingmaðurinn ásamt hópi annarra þingmanna að dreifa athyglinni, draga inn mál sem að mínu viti er alls ekki næst á dagskrá og draga athyglina frá þeim verkefnum sem er raunverulega brýnt að inna af hendi.

Það er með ólíkindum að horfa á þetta mál. Flutningsmenn eru 15 eða 16 talsins, nærri því eins margir og voru á brennivínsmálinu, ekki það að ég ætli að draga alveg samasemmerki á milli þessa máls og brennivínsmálsins en þetta er samt greinilega mikið áherslumál. Ég hefði viljað sjá þessa orku og þennan kraft fara í að mæla fyrir átaki í vegamálum á öðrum sviðum.

Varðandi Kjalveg að öðru leyti get ég tekið undir það sjónarmið að það sé nauðsynlegt að þar sé gerður þokkalegur og góður sumarvegur sem beri umferð fólks en ekki vöruflutninga og geti þannig þjónað vel sem sumarvegur. Ég get tekið undir það sjónarmið.

Ég ætlaði ekki að hafa mörg orð um þetta, herra forseti. Ég vil bara árétta að þetta er ekki aðeins umhverfissjónarmið heldur varðar þetta líka áherslur í vegagerð, eins og forgangsröðun hvað varðar brýn verkefni sem takast þarf á við í samgöngumálum sem þjóðin hefur beðið eftir, íbúar landsins hafa beðið eftir víða. Þeir mundu vilja sjá kjark, kraft og dugnað þingmannsins birtast þar en ekki í því að drepa umræðunni á dreif með því að berjast fyrir því að leggja heilsársveg yfir Kjöl, eitt mesta vetrarveðravíti landsins. Ég hvet þingmanninn og aðra flutningsmenn tillögunnar til að huga frekar að öðrum áherslumálum en þessum í samgöngumálum þjóðarinnar.