135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

heilsársvegur yfir Kjöl.

21. mál
[18:12]
Hlusta

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kem í ræðustól til að lýsa eindreginni andstöðu minni við hugmyndir um heilsársveg yfir Kjöl. Nokkur mikilvæg hugtök vantar í þeim hugmyndum sem koma fram í þessari tillögu til þingsályktunar, svo sem náttúra og náttúruvernd, landslag, víðerni og öræfi og öll þau dýrmæti sem þeim fylgja. Við búum í heimi þar sem afar hart er sótt að náttúrunni og það á að vera eitt af okkar meginforgangsverkefnum að verjast þeirri árás og einn hluti þess er að vernda hálendið frá uppbyggingu á hraðbrautum, og það snýst að sjálfsögðu ekki bara um einn stóran og mikinn heilsársveg þar sem miklir flutningar fara um heldur fylgir slíku að sjálfsögðu annars konar þjónustuuppbygging, bensínstöðvar, sjoppur og margt annað sem verður eins og risastórt ör á hálendi Íslands.

Það er löngu kominn tími til að það náist breið samstaða um hálendið sem er ein dýpsta auðlind sem við búum að á svo margan og magnaðan hátt. Eins og hv. þingmenn Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Jón Bjarnason komu að áðan eru svo sannarlega mörg önnur samgönguverkefni sem ættu að hafa forgang, en jafnvel þótt svo væri ekki á náttúran að vera í fyrsta sæti í þessu máli. Það sem er auðvitað afar brýnt, eins og hér hefur verið komið að, áður en nokkuð annað er gert er að hafa heildstæða sýn á vegagerð á hálendinu og ganga frá landskipulagi í þessum málum.

Það er fáránlegt að gera ekki greinarmun á ferðamannavegum og almennum vegum. Annars vegar á almennum vegum þar sem það eitt er í raun haft að leiðarljósi að koma fólki og flutningabílum hratt og örugglega á milli staða, og hins vegar á ferðamannavegum þar sem hugmyndin er sú að fólk geti farið til skoðunar á landslagi og náttúrufari og upplifað eitthvað sem hraðbrautir eyðileggja og ekki er hægt að fá til baka þegar það hefur verið eyðilagt. Ég vil taka undir með þeim sjónarmiðum sem hér hafa komið fram að það ætti frekar að fara í meiri uppbyggingu á þjóðvegi 1.

Það er langt í frá að allir vegir séu grænir vegir, en 1. flutningsmaður, hv. þm. Kjartan Ólafsson, talaði um þennan veg sem grænan veg. Ég hafna þeirri lýsingu, þessi vegur mun eyðileggja öræfastemningu þá sem land okkar hefur upp á bjóða og það mikla gildi sem hálendið fyrir þjóðina. Slíkan veg á einfaldlega ekki að hafa uppi á borðinu og ég vona að við getum fundið okkur önnur og betri verkefni til að vinna úr.