135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

heilsársvegur yfir Kjöl.

21. mál
[18:31]
Hlusta

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég hafði svo sem ekki hugsað mér að taka svo mikinn þátt í upphafi umræðunnar en svona er það stundum, að umræður dragast úr hófi.

Ég vil segja það við hv. þm. Kjartan Ólafsson, 1. flutningsmann þessa máls, að mér og að ég held öðrum sem hafa talað í þessu máli og lýst okkur andsnúin því, er fullkunnugt um að hér er um forkönnun að ræða en það er kannski ekki aðalatriði málsins. Mér finnst að menn eigi í raun að taka af skarið og segja sem svo að uppbygging hálendisvega sé nokkuð sem við viljum ekki sjá, heilsársvegar. Þetta er álíka og þegar menn settu af stað „forkönnun á jarðgöngum til Eyja“. Ég held að a.m.k. margir hafi vitað það innst inni að þetta væri leið sem yrði aldrei farin. Menn kynda undir ákveðnar væntingar og gefa í skyn að hlutirnir geti hugsanlega orðið öðruvísi heldur en síðar verður. Mér finnst að í þessu máli kyndi menn undir óraunhæfum væntingum.

Annað vildi ég nefna, herra forseti, sem kom fram í máli hv. þm. Kjartans Ólafssonar. Ég held að hv. þingmaður hafi vísað í greinargerð með þessu máli þar sem hann talaði um forkönnun á umhverfisáhrifum. Það er ekkert til, hv. þingmaður, sem heitir forkönnun á umhverfisáhrifum. Í lögunum er það þannig að annaðhvort er farið í mat á umhverfisáhrifum eða ekki. Það er ekkert til sem heitir forkönnun í þeim efnum.

Örfá orð um það sem kom fram í máli hv. þingmanns varðandi samanburð við aðra vegi á Íslandi. Hv. þingmaður tiltók m.a. þjóðgarðinn í Skaftafelli, Skeiðarársand og Þingvelli, þá er þar mjög ólíku saman að jafna. Það er ekki um það að ræða að menn geti keyrt malbikaða vegi innan þjóðgarðsins í Skaftafelli. Það er hins vegar ágætisaðgangur og aðgengi að þjóðgarðinum sem slíkum. Brýrnar yfir Skeiðarársand og sú mannvirkjagerð sem átti sér stað á sínum tíma var bylting í samgöngumálum landsins. Það var samgöngubót til að tengja saman landshluta og búa til hringveg um Ísland. Ég get ekki verið sammála hv. þingmanni um að setja uppbyggðan heilsársveg yfir Kjöl í sama flokk og þá vegarspotta sem hann nefndi áðan.

Varðandi það sem hv. þingmaður nefndi um ferðaþjónustuna þá ætla ég að leyfa mér að hafa efasemdir um það að menn fari um með ferðamenn yfir Kjalveg yfir vetrartímann þótt vegurinn verði uppbyggður. Þótt menn fari út í það þá er ekki víst að menn muni sjá mikið. Eins og kom fram í máli hv. þingmanns í upphafi er auðvitað nokkuð mikið veðravíti uppi á Kili og kannski ekki hægt að sjá í fljótu bragði að ferðamenn hafi mikið gagn af því að keyra á uppbyggðum heilsársvegi að norðan og suður til Reykjavíkur í grenjandi byl og stórhríð og sjá ekki út um gluggana þótt svo vegurinn væri uppbyggður.

Þetta mál fer væntanlega til umfjöllunar í samgöngunefnd þar sem ég gegni formennsku. Við munum ræða það niður í kjölinn þar. Það á örugglega eftir að koma aftur til umræðu í þessum þingsal þannig að í sjálfu sér ætla ég ekki að ræða málið meira efnislega að þessu sinni. En ég ítreka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni. Ég sé ekki nauðsyn á því að fara í þetta mál þótt menn kalli það forkönnun. Menn setja svona mál ekki af stað og í forkönnun öðruvísi en svo að þeir sjái fyrir sér að fara í verkefnið einhvern tíma. Ég er ósammála því að við eigum að gera það.