135. löggjafarþing — 19. fundur,  6. nóv. 2007.

umferðarlög.

27. mál
[18:36]
Hlusta

Flm. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum. Ásamt mér eru flutningsmenn hv. þm. Karl Valgarð Matthíasson, Ólöf Nordal, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Árni Þór Sigurðsson og Ármann Kr. Ólafsson.

Okkur sem flytjum þetta mál er kunnugt um að núna fer fram í samgönguráðuneytinu heildarendurskoðun á umferðarlögum sem væntanlega mun koma inn á vorþingi ef gengur vel. Þetta frumvarp er liður í að efla almenningssamgöngur og gengur út á að skilgreina svokallaðar forgangsakreinar í umferðinni. Forgangsakreinar eru nokkuð sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, sérstaklega Reykjavíkurborg, hafa sett í forgang til að flýta fyrir för almenningsvagna, strætó. Það er alveg ljóst að á næstu árum þarf að fara í átak í eflingu almenningssamgangna. Umferðin og skipulag hennar, bæði í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu öllu, sýnir að ekki er vanþörf á að greiða leið strætisvagna.

Í dag eru á nokkrum stöðum í borginni svokallaðar forgangsakreinar. Hægt er að taka dæmi um þær í Lækjargötu og eins á Miklubraut. En þar sem þessar forgangsakreinar eru ekki skilgreindar í umferðarlögum hefur lögreglan engin tæki til að bregðast við, engar heimildir til að sekta þá sem virða ekki þessar akreinar. Því miður hefur það verið þannig. Ég hygg að flest okkar sem höfum ekið þarna um sjáum að oft á tíðum eru aðrir bílar en strætisvagnar og leigubílar sem keyra þessar akreinar og menn geta komist upp með það því að engar heimildir eru í lögum til sekta fyrir það. Það má segja að þetta sé ekki stórt mál í umferðarpólitísku samhengi en það er einn lítill liður í því að efla almenningssamgöngur á þessu svæði. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er aukin áhersla á almenningssamgöngur og á bls. 7 í stefnuyfirlýsingunni segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin mun beita sér sérstaklega fyrir úrbótum á samgöngukerfi höfuðborgarsvæðisins.“

Ég kýs að túlka þetta sem svo að menn séu tilbúnir til að auka þátt almenningssamgangna í umferð í borginni. Þetta væri einn liður í því.

Í sjálfu sér, herra forseti, þarf ég ekki að hafa lengri inngang að þessu máli. Ég ítreka að hugsun mín með því að setja málið fram núna en bíða ekki nýjum lagabálki um umferðarlög frá samgönguráðuneytinu er fyrst og fremst að koma til móts við athugasemdir lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og borgaryfirvalda í Reykjavík, óskir um tæki til að fylgja þessu fastar eftir og að því sögðu legg ég til að þetta mál fari í þann farveg sem venja er á þingi.